Sæl og blessuð, nú er árið 2014 að líða undir lok og árið 2015 að hefjast. Nú er líka að hefjast nýtt tímabil í mínu lífi, tímabil Siggu bloggara! Ég ákvað að byrja árið 2015 á því að opna bloggsíðu…svo gat ég ekki beðið eftir nýja árinu! Hérna langar mig að fjalla um stóra áhugamálið mitt, sauma- og prjónaskap, nota þessa síðu til að hafa alla mína vinnu á einum stað og leyfa þeim sem áhuga hafa að fylgjast með því sem ég er að gera í saumahorninu mínu.
Við fjölskyldan fluttum í draumahúsið okkar sumarið 2014 – passlega stórt, gamalt hús sem við fjögur pössum vel inn í. Með flutningunum eignaðist ég mína eigin saumastofu, 20fm rými með sér inngangi – einfaldlega draumur í dós. Ég er ennþá svolítið að koma mér fyrir, raða uppá nýtt og fá hugmyndir um hvernig mig langar að hafa saumastofuna innréttaða. Þetta kemur samt allt saman og ferlið er bara skemmtilegt.
Svona til að segja aðeins frá sjálfri mér, þá er ég alin upp yngst í 6 systkina hópi, með heimavinnandi mömmu og pabba sem vann fyrir fjölskyldunni. Mamma var mikil saumakona, saumaði nánast öll fötin á okkur systkinin og fyrir jól, páska og fermingar, saumaði hún gardínur fyrir Áklæði og gluggatjöld. Ég er því alin upp hjá saumakonu og allt sem ég kann í saumaskap, hef ég lært hjá henni. Hún sagði alltaf: “Sigga mín, ef þú vandar þig við að sníða, þá er auðvelt að sauma sér flík…” Ég hef fylgt þessu ráði hennar mömmu og yfirleitt gengur þetta upp hjá mér….ég segi yfirleitt því auðvitað skýtur maður stundum yfir eigin getu og býr til eitthvað sem verður verulega undarlegt í laginu – en það er hluti af lærdómsferlinu, er það ekki? 🙂
Gerið svo vel að skoða og takk fyrir innlitið 🙂