Litla, hvíta hænan

Þetta er hún, litla, gula…nei hvíta hænan mín. Nú gætu sumir spurt sig, hvað er eldhústímamælir að gera á saumastofu? Nú skal ég segja þér lesandi góður, þessi hæna er búin að vera mín stoð og stytta núna í u.þ.b. ár. Það er nefnilega þannig að kroppurinn minn og hugur eru ekki alltaf tengdir og hugurinn ekki alltaf að hlusta þegar kroppurinn segir “hvíla sig”. Ég er hins vegar svo heppin að eiga vinkonu sem er iðjuþjálfi. Það er hún Gunnhildur besta mín og hún er snillingur í að finna leiðir til að kenna heila og kropp að tala saman á ný. Hún gaf mér þessa hænu og síðasta árið hef ég starfað þannig að ég stilli hænuna á 20-30 mín og fer svo að vinna. Þegar hænan hringir þá hætti ég að vinna, stend upp og teygi aðeins á kroppnum. Síðan hækka ég í græjunum og dansa hressilega – það er nú auðvelt þegar maður hefur svona fínar græjur…

…bara skella símanum í, velja sér tónlist og svo bara tjútti tjútt. Best er að hafa mjaðma-sveiflu-dilli-rónlist því þannig mýki ég upp vöðvana og gerir mig klára í næstu törn. Eftir smá dans stilli ég hænuna aftur og vinn þar til hún hringir…Snilldarlausn og heilinn er sífellt að verða betri í að hlusta á kroppinn 🙂 Litla, hvíta hænan mín er sem sagt ein besta tímastjórnunargræja sem ég hef kynnst – elska hana!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Áhugaverðar greinar