Facebook
Picture of Sigga

Sigga

Að fela saumfarið

Síðasta vika var skrýtin vegna þess að overlock saumavélin bilaði og ég gat ekki saumað á hana…ekki nóg með það, tölvan mín bilaði líka þannig að ég komst ekki að blogga – alveg getur maður orðið háður því. Því miður lítur út fyrir að hún sé látin. Ég er sem sagt að stelast í tölvu dóttlunnar minnar því ég sakna þess að skrifa hér inn 🙂

Þar sem ég kemst varla í gegnum daginn án þess að sauma, þá stóð ég í saumahorninu mínu, horfði yfir og hugsaði….hvað á ég þá að gera? Ég er orðin svo vön að sauma alla sauma í overlockinu – sauma verulega mikið úr prjónaefni – og það er ekki hægt að neita því að frágangurinn á saumunum er mun fallegri þegar notað er overlock. Mér datt þá í hug að prófa hvernig maður getur gengið frá köntunum með venjulegri saumavél. Kantarnir á prjónaefnum geta trosnað ef saumfarinu er ekki lokað og þá er rangan á flíkinni ekki falleg…mér finnst rangan alveg mega vera falleg líka 🙂

Ég sneið í kjól úr prjónaefni og byrjaði á því að sauma hann saman á réttunni

…og svo snéri ég honum við og saumaði saman á röngunni eins og venjulega. Það þarf að passa vel að hafa seinna saumfarið dýpra en það fyrra svo kanturinn stingist ekki út…

…þá lítur rangan út svona. Mér finnst þetta mun fallegra en kantur sem er trosnaður og undinn. Það sem er gott að hafa í huga ef maður ætlar að sauma flíkina á þennan hátt, er að gera ráð fyrir meira saumfari þegar flíkin er sniðin. Ég notaði 1cm í sauminn á réttunni og 1,2cm í sauminn á röngunni – samtals eru þetta 2,2cm en yfirleitt er gert ráð fyrir 1,5cm saumfari. Það er líka alveg hægt að klippa nálægt saumnum og minnka þar með seinna saumfarið.

Annars eru auðvitað fleiri aðferðir við að sauma saman flík og fela saumfarið, það er t.d. hægt að nota skáband, leggja það yfir miðjan sauminn þannig að kanturinn á efninu er innan við kantinn á skábandinu. Með þessari aðferð verða 3 saumar á flíkinni, þ.e. sá sem saumar saman flíkina og tveir til hliðanna sem festa skábandið.

Þessi saumaskapur er mun tímafrekari en overlockið, það þarf jú að sauma hvern saum tvisvar sinnum – en ef ég ætti ekki overlock þá myndi ég hiklaust taka þann tíma sem þetta tekur og skila svona frágangi frá mér 🙂

Saumasaga Siggu

“…uhhh, mögulega geturðu breytt honum…” Uppúr árinu 2000 hófst mín vegferð í saumaskap. Það þróaðist þannig að ég varð óvinnufær á hinum almenna vinnumarkaði og

Lesa áfram »