Fjölbreytt vika

Vikan í litla saumahorninu er búin að vera aldeilis frábær og nóg að gera. Ég seldi þessa þrjá kjóla og fékk pöntun á einn grænan í viðbót.

Ég elska þegar fólk vill vera í fötunum sem ég bý til 🙂

Svo er ég búin að vera þó nokkuð í ullinni. Undanfarin þrjú ár hef ég verið saumakona hjá litlu fyrirtæki sem hannar og framleiðir vörur úr hinni dásamlegu, íslensku ull. Ég sauma húfur og lúffur, pils og peysur og svo er ég orðin aðal viðgerðarsaumakona eigendanna 🙂

Þessa vikuna gerði ég við peysu sem er alveg að gefa upp öndina en eigandinn hreinlega elskar hana.

og fékk fullan kassa af lúffum til að sauma 🙂

Að öðru, eins og ég hef sagt áður þá er ég hrútur og á það til að geysast af stað, til þess eins að rekast á og byrja uppá nýtt. Sem betur fer þá finnst mér ekkert leiðinlegt að rekja upp og byrja frá grunni aftur – þannig lærir maður, er það ekki 🙂

Ég er að setja lista á peysukant, byrjaði á því að títa hann bara á peysuna og þrusa henni í vélina – líningin kom svona út…

…sem sagt undin eins og tuska.

Eftir nokkrar tilraunir…meiri samt almennar pælingar, ákvað ég að rekja allt upp og byrja frá grunni aftur. Byrjaði á því að pressa listann og peysuna með græjunni góðu.

Sá um leið að það myndi nú alveg borga sig…

Síðan þræddi ég listann á peysuna og þar stendur verkið nú…

Ég geng nú út frá því að þetta muni gera gæfumuninn – læt ykkur vita þegar allt er klárt 😉

Að lokum fékk ég svo skemmtilegt verkefni sem ég kláraði í vikunni, ég var að breyta túniku í kjól, þ.e. skvísunni þótti túnikan of stutt til að vera í án þess að vera í pilsi þannig að við settum bara pils neðan á… Það þurfti auðvitað að stytta og aðlaga og skvísan kom og mátaði og þá var allt endanlega mælt upp og ákveðið. Ég klikkaði alveg á því að taka fyrir-mynd en svona lítur kjóllinn út núna, eftir breytingar

Svakalega gaman að breyta fötum – taka eitthvað gamalt/óhentugt og gera eitthvað alveg nýtt 🙂

Sól í hjarta, sól í sinni, sól úti, sól inni!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Áhugaverðar greinar