Lutterloh

Vikan í saumahorninu er búin að vera frekar þreytt hjá mér, líklega vegna anna síðustu viku – tek svona annasömum vikum fagnandi en greiði stundum fyrir þær með þreyttum kroppi. Mér finnst ég hafa gert ósköp lítið en er nú samt búin að sauma ca. 25 pör af ullarlúffum og stytta tvennar buxur. Það er nú alveg ágætis vinna – held ég sakni bara kjólanna minna 🙂

Mig hefur lengi langað að búa til mín eigin snið, þ.e. eftir líkamsmáli. Ég hef skoðað aðeins í kringum mig og svo virðist sem ég þurfi að fara í fatahönnun “all in” til að læra sníðagerð, þð virðist ekki vera hægt að taka bara sníðakúrs. Ég hef ekki haft áhuga á fullu námi, þannig að þegar Virka auglýsti ókeypis sníðanámskeið í haust þá var mín sko ekki lengi að skrá sig. Mætti svo spikspennt með möppuna og blýant.

Þar var Herra Lutterloh sjálfur kominn að kynna sníðakerfi sem amma hans hafði hannað fyrir mörgum árum. Sniðið byggir á þeim kenningum að kroppurinn er alltaf í réttum hlutföllum, sama hvert vaxtarlagið er, t.d. er höfuð og háls 1/8 af hæð líkamans, framhandleggur jafnlangur il o.s.frv. Út frá þessum kenningum er nóg að taka tvö mál, þ.e. brjóstmál og mjaðmamál og voilá, hægt að búa til snið. Hér eru frekari upplýsingar um Lutterloh sníðakerfið.

Þetta finnst mér alger snilld og er búin að bíða spennt eftir að gefa sjálfri mér tíma til að gera flík eftir þessu kerfi. Um daginn skellti ég mér í verkið.

Þennan bækling fékk maður frítt með, þetta er grundvöllurinn til að geta búið til sniðið. Búið er að setja inn tölur sem maður á svo að fylgja miðað við eigin mál. Í bæklingnum eru snið til að gera skyrtu, vesti og buxur. Persónulega finnst mér flíkurnar doldið halló en ég er nú bara þannig að ég þarf að gera eitthvað oggu öðruvísi og ákvað því að gera kjól. Það ætti ekki að skipta máli, axlar-, mittis- og mjaðmamál gilda líkt og í öðrum flíkum 🙂

Við fengum líka svona kvarða sem ég plastaði stífan og límdi framan á málbandið mitt. Á honum eru líkamsmálin og maður teiknar punkta í hlutfalli við málin…smá flókið að útskýra en t.d. eru mín mál B102 og M110. Þegar ég geri efri búk, þá festi ég pinnan á málbandið þar sem stendur 102 og festi það svo á X á sniðinu. Síðan eru ákveðnir punktar gefnir og tala við þá sem segir hve marga cm á að hafa að punktinum á sniðinu. Svona fer maður hringinn, punkt fyrir punkt…þetta skýrist 🙂

Síðan var næsta skref að teikna sniðið upp, passa þarf að hafa örugglega nógan pappír. Ég festi sníðapappírinn á korktöflu sem ég á því…

…á pappírinn nælist bæklingurinn – með sniðinu sem á að nota, og síðan nælist málbandið/kvarðinn á réttan stað á sniðinu (sjá X á miðju bakstykki)

Og þá er ekkert eftir nema að teikna sniðið…

Hér þarf nákvæmni, skrá punktinn réttu megin við málbandið og auðvitað skrá punktinn á hárréttan stað. Þegar búið er að skrá punktana, þarf að tengja þá með línu og síðan klippa út.

Þetta gerði ég svo fyrir bak- og fram stykkið og svo auvitað ermar. Ermarnar eru í raun bara handvegurinn, síddin skiptir ekki máli.

Ok, þá var komið að því að sníða efnið. Ég auðvitað mátaði fyrst sniðið við sjálfa mig – eins og segir í leiðbeiningum – og merkilegt nok, það virtist passa, aðeins of vítt en líklega rétt miðað við skyrtusnið 🙂

Ég valdi svart bómullarefni sem er með teygju til verksins…

…og svo bara að setja allt saman – klikkaði alveg á því að taka myndir af sníðaferlinu 🙁

Svona snið er með brjóstsaumum og mittissaumum. Það er talað um að bíða með að gera mittissaumana þangað til búið er að setja flíkina saman og máta – mjög lógískt. Það getur verið vandasamt að sauma svona föll þannig að ég títa þau alltaf niður áður en ég sauma þau. Fyrst þegar ég byrjaði að sauma þræddi ég, mamma kenndi mér það, það er trúlega betra…ég reyndar geri það á vandasamari flíkum…

Svo þegar ég saumaði hliðarnar saman, ákvað ég að láta brjóssauminn liggja niður. Mamma hefði sagt mér að strauja…en ég sleppti því og afsaka mig með því að þetta er tilraunaflík :Þ

Jæja, búin að setja saman og kominn tími til að máta…það verður að fylgja hér með hvað það er fyndið að vera ein og ætla að taka myndir að flíkinni frá sem flestum hliðum. Læt hér fylgja myndaröð og eins og sjá má þá hitti ég nú ekki alltaf á flíkina…

Ég get ennþá hlegið að speglinum, hálsinum og öllu því sem ekki á að koma þarna fram 🙂

Niðurstaðan er sú að þessi sníðaaðferð virkar, hér notaði ég skyrtusnið þar sem miðað er við óteygjanlegt efni og því víðar ermar og búkur. Það þarf auðvitað að aðlaga hverja flík sniðinu. Hvort það er einfaldlega betra að kaupa sníðabók frá þeim eða aðlaga sjálf…leyfi þeirri pælingu að hanga 🙂

Næsta skref – skoða fleiri sníðaaðferðir, tískan eins og hún er í dag á eftir að breytast og ég vil kunna að gera kroppsniðinn kjól frá grunni!

Takk í dag 🙂

3 Comments

  1. […] gerði ég eftir sníðakerfi Lutterloh en þar tekur maður brjóst-og mjaðmamál og býr til snið úr þeim málum – eftir […]

  2. […] snið í huga til að miða við. Ég hef fjallað um eina af mínum uppáhalds sníðaaðferðum, Lutterloh en núna ætla ég að búa til snið uppúr […]

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Áhugaverðar greinar