Uppskriftir og snið

Ermar úr Léttlopa – uppskrift

Jæja, vikan búin að vera alherjar flensa og slappleiki, ég hef ekkert farið í saumahornið mitt og sakna þess alveg ágætlega. Til að horfa á þessa viku með jákvæðum augum þá hafði ég mig í að prjóna smávegis í flensuhangsinu.

Ein af pælingunum á bak við bloggið er að deila með öðrum, uppskriftum og sniðum sem ég hef sjálf hannað og ég er búin að vera á leiðinni að setja inn uppskrift af fallegum ermum úr Léttlopa. Í iðjuleysinu sem fylgdi flensunni skellti ég mér í að fitja upp í ermarnar góðu. Hér kemur svo uppskriftin, það er líka hægt að fá skjalið sent á netfang, það er án mynda.

Ermar – uppskrift S/M og M/L

Garn – Léttlopi, 5 dokkur grunnlitur, 1 dokka litur og glansþráður að eigin vali

Prjónar nr. 4,5 og 6 – sokkaprjónar eða langur hringprjónn

Fremri hluti ermi*

Fitja upp 36/42 lykkjur og tengja saman í hring. Prjóna 1.umf. brugðna og síðan 2 umf. gataprjón.

Gataprjón – prjóna 2 lykkjur saman og slá bandi uppá prjón, síðan 2 lykkjur saman og slá bandi uppá prjón – endurtaka út hringinn. Ein umf. slétt. Endurtaka næstu umf.

Prjóna 15 umf slétt og byrja þá á mynstri sem lítur svona út

Mynstur:

Setja saman hvítan (eða annan lit) og glansþráð (hvaða lit sem er). Prjóna til skiptis 1 lykkju grunnlit og 1 lykkju lit/glansþráð – út umferðina. Prjóna svo aðra umf. og byrja þá fyrstu lykkju á lit.

Prjóna svo 5 umf með grunnlit og byrja þá á tíglunum

  • prjóna 2 lykkjur í grunnlit og eina í lit – út umferð
  • prjóna 2 lykkjur í grunnlit og eina í lit, 5 lykkjur í grunnlit og 1 í lit – út umferð
  • prjóna 1 lykkju í grunnlit og 3 í lit, 3 lykkjur í grunnlit og 3 í lit – út umferð. Prjóna 2 svona umferðir
  • prjóna 5 lykkjur í lit og eina í grunnlit – út umferð
  • bæta glansþræði við grunnlitinn, prjóna 2 lykkjur í lit, eina í grunnlit með þræði, 2 lykkjur í lit og eina í grunnlit á þráðar (lykkjan á milli) – út umferð
  • prjóna 1 lykkju í lit, 3 í grunnlit með þræði, 1 í lit og eina í grunnlit (lykkjan á milli) – út umferð
  • prjóna 2 lykkjur í lit, eina í grunnlit með þræði, 2 lykkjur í lit og eina í grunnlit án þráðar (lykkjan á milli) – út umferð. Prjóna 2 svona umferðir
  • prjóna 5 lykkjur í lit og eina í grunnlit – út umferð
  • prjóna 1 lykkju í grunnlit og 3 í lit, 3 lykkjur í grunnlit og 3 í lit – út umferð. Prjóna 2 svona umferðir
  • prjóna 2 lykkjur í grunnlit og eina í lit, 5 lykkjur í grunnlit og 1 í lit – út umferð
  • prjóna 2 lykkjur í grunnlit og eina í lit – út umferð

Prjóna 5 umf. með grunnlit og loka svo mynstrinu með því að setja saman hvítan (eða annan lit) og glansþráð (hvaða lit sem er). Prjóna svo til skiptis 1 lykkju lit/glansþráð og 1 lykkju grunnlit – út umferðina. Prjóna svo aðra umf. og byrja þá fyrstu lykkju á grunnlit.

Prjóna með grunnlit þar til ermin mælist 23/25cm, prjóna þá eina umferð og auka út í 3ju hverri lykkju út umferðina.

 Seinni hluti ermi

Skipta á prjóna nr. 6 og prjóna þar til ermin mælist 47/52cm.

Bakið

Prjóna perluprjón fram og tilbaka þar til bakið mælist 50/55cm

Perluprjón: prjónað er slétt og brugðið og í næstu umferð er prjónað brugðið og slétt, þ.e. slétt yfir brugðna og brugðin yfir slétta.

Prjóna efri hluta seinni ermi í beinu framhaldi af bakinu, þ.e. tengt aftur í hring og prjónað slétt þar til ermin mælist 24/27cm. Stykkið lagt til hliðar og frampartur seinni ermi prjónaður á sama hátt og í byrjun*

*Sjá leiðbeiningar hér fyrir ofan 🙂

Slíta frá en skilja eftir góðan spotta til að lykkja saman með.

Lykkjað saman

Leggja prjónana saman, þ.e. prjón frá fremri hluta ermi að prjón efri hluta erminnar þannig að ermahlutarnir tengist.

Þræða grófa nál með góðum enda af fremri hluta af seinni erminni. Þræða með nálinni ofaní fremstu lykkjuna, takið hana fram af prjóninum og svo upp í næstu lykkju (sem nú er orðin fremst á prjóninum) – gera það sama á prjóninum á móti. Endurtaka þetta koll af kolli þar til allar lykkjur hafa verið tengdar saman.

Svona sýnir prjónablaðið lykkjun

Ganga frá endum, hekla fastahekl í jaðarinn á bakinu með grunnlit og framan á ermunum með glansþræði.

Svona lítur þetta svo út

Skolið og leggið til þerris!

Hér eru svo ermarnar, seldi alveg slatta á þeim á sínum tíma og tek við pöntunum fyrir þær sem ekki hafa áhuga á að prjóna sjálfar 🙂

Góða skemmtun við prjónaskapinn, mér þætti voða vænt um að heyra frá ykkur, hvort sem þið hafið prufað ermarnar eða hafið athugasemdir við uppskriftina…eða annað 🙂

Takk í dag 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Áhugaverðar greinar