Mér finnst þessi tími svolítið skemmtilegur – þá er ég ekki að meina veðrið. Nei, á þessum tíma, mars/apríl er mikið um veislur, árshátíðir og fermingar.
Jói leikari kom til mín um daginn, hann var að fara að vera veislustjóri á árshátíð og vantaði að láta þrengja buxur. Buxurnar voru nú ekkert endilega mjög algengar karlmannsbuxur…
Jeps, ótrúlegur húmoristi og ekki nóg með buxurnar…þetta eru jakkaföt, jakkarnir í sama lit og buxurnar 🙂 Dásamlegt!
Það var svo sem ekki mikil vinna í þessu, þrengja skálmarnar svo þær væru aðeins meira “up-to-date”.
Hér er svo gaurinn kominn í þær – ég brosi enn þegar ég hugsa um þessi jakkaföt, alveg frábær :
Svo kom hún Steinunn til mín, hún var að fara á árshátíð og skellti sér í að sauma sér kjól með tjulli…svo bara varð hann eitthvað skrýtinn og hún bað mig að hjálpa sér að laga hann.
Hún var ósköp ánægð og gat farið í kjólnum á árshátíðina 🙂
Síðasta verkefnið þessa vikuna var svo fyrir dóttluna mína, hún er að fermast í vor og eftir nokkrar ferðir í búðir að máta kjóla þá bað hún mig að sauma handa sér kjól. Móðurhjartað tók auðvitað kipp af gleði og var ekki lengi að fara með hana í Föndru og kaupa efni. Við keyptum siffon og svo verður annað efni undir því.
Ég komst ekki lengra en að sníða innri kjólinn, hann er úr fallega bláu teygjuefni sem fellur vel og mun koma vel út undir siffoninu.
Ég ætla ekki að segja ykkur meira frá fermingarkjólnum í bili – en ég lofa að koma með hann þegar hann er tilbúinn 🙂
Takk fyrir mig 🙂