Þetta fallega sjal heklaði ég fyrir löngu síðan, fann gamla uppskrift og var óralangan tíma að klára því þetta var eitt af mínum fyrstu heklverkefnum. Ég held að ég sé búin að eiga það í 10 ár og elska það alltaf jafn mikið.

Ég er auðvitað búin að týna uppskriftinni þannig að þegar ég átti garn sem ég vildi gera eitthvað við, ákvað ég að skrifa þetta sjal upp. Ég hef ekki hugmynd um hvort ég hafi skrifað það rétt miðað við upprunalegu útgáfuna en mig grunar að það komi ekki að sökum.

Ég kalla þetta eiginlega bara 3 loftlykkjur því allar loftlykkjurnar í minni uppskrift tengjast 3 🙂

Ég set hérna inn mynd með útskýringum – svona fyrir einhverja sem gleyma eins og ég 😉

Og hér kemur uppskriftin, í raun er alveg saman hvaða garn er notað…líka stærð á heklunál. Ljósa sjalið er úr akrýlgarni og heklað á nál nr. 5 eða 6. Seinna sjalið er úr litaprengdu ullargarni, mun fínna en það ljósa – heklað með nál nr 4,5.

Grunnmynstur – þetta er endurtekið eins lengi og heklað er:

  1. Umf. 9ll – festa saman í hring
  2. Umf. 6ll, (3ll verða 1st í bakaleiðinni og hinar 3ll verða brú), 1st í hringinn, 3ll, 1st í hringinn, 3ll, tvöfaldur stuðull.
  3. Umf. 6ll, 4 stu (milli stuðlanna í fyrri umferð), 3ll, tvöfaldur stuðull í 3.ll fyrri umferðar (komin brú)
  4. Umf. 6ll, 2st í hvern stuðul frá umf. 3 = 8 stuðlar í allt, 3ll, tvöf. stuðull í 3.ll fyrri umferðar
  5. Umf. 6ll, 2st á hvern frá umf. 4 = 16 stuðlar í allt, 3ll, tvöf.st í 3.ll fyrri umferðar

Nú er grunnmynstri lokið og þá bætum við bara við – tengjum grunnmynstrin saman 🙂

6. Umf. 6ll, 1st, 3ll, 1st – 3ll, 3kl í stuðull 5,6 og 7, 3ll 3kl í stuðla 10, 11 og 12, 3ll – 1st, 3ll, 1st, 3ll, tvöf. stuðull í 3.ll fyrri umf.

Nú er búið að undirbúa að tvö grunnmynstur fari ofaná og verkið ætti að líta svona út…

7. Umf. 6ll, 4st milli stuðlanna frá fyrri umf., 3ll, 4st í bogann, 3ll, 4st, 3ll, tvöf. stuðull í 3.ll fyrri umf.

8. Umf. 6ll, 8st (2st á hvern), 3ll, 2kl, 3ll, 8st, 3ll, tvöf. st.

Jæja, er ekki að komast mynd á þetta 🙂

9. Umf. 6ll, 16st (2 í hvern), 3ll, 16st, 3ll, tvöf.st.

10. Umf. 6ll, 1st, 3ll, 1st – 3kl, 3ll, 3kl – 3ll, 1st, 3ll, 1st – 3ll 1st, 3ll, 1st, 3ll, tvöf.st.

Nú eru saman komin tvö grunnmynstur og undirbúningur fyrir 3 í röð…þá lítur þetta svona út…

Þetta er nú öll uppskriftin, síðan heldur maður bara áfram, koll af kolli, þangað til óskastærðin er komin – endað á tvöföldum stuðli og gengið frá endum…

Ég vona að þið getið nýtt ykkur þetta, látið mig endilega vita hvað ykkur finnst – takk fyrir mig og gangi ykkur vel 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *