Breytingar eru góðar

Jæja, þá er það kjóllinn sem ég keypti á útsölunni í Corner í Smáralind. Eins og ég sagði í síðustu færslu, sem má lesa hér, þá elska ég að breyta flíkum og keypti mér fallegan kjól á góðu verði. Hann var hins vega ansi hreint viðburðalítill og ermarnar allt of þröngar. Ég gleymdi að taka mynd áður en ég tók hann í sundur en hér er mynd af framstykkinu – hann var eins að aftan…

Ég hafði greinilega ekki heldur rænu á að pressa efnið aðeins fyrir myndatöku 😀

Ég var ekki með neina ákveðna hugmynd, aðra en að gera meira úr kjólnum, mig langaði ekki að hafa hann svona einfaldan. Fljótlega kom sú hugmynd að klippa hann upp og setja annað efni á móti – mögulega þá efni sem teygist. Ég var náttlega doldið upptekin af því að kjóllinn var í þrengra lagi – og ermarnar allt of þröngar 🙂

Til að klippa kjólinn upp án þess að eyðileggja efnið, var auðvitað mikilvægt að hafa smá hugmynd um hvernig best væri að haga þessu. Ég lagði því framstykkið á sníðaborðið og teiknaði á efnið, hugmyndina sem fæddist í kollinum…

Þá var ekki eftir nema bara klippa af stað…og finna svo efnið sem hentaði á móti. Ég átti svona svart, gegnsætt efni sem er með teygju og ákvað að nota það…

Ég valdi svo hvaða hluta ég vildi hafa með bleika efninu og hvaða hlutar mættu vera gegnsæir. Svona var útkoman, mér finnst kjóllinn einfaldlega geggjaður og það er svooo gott að vera í honum…

Nema hvað, maður dettur ekkert niður á svona sniðagerð og hættir svo bara 🙂 Nú er ég auðvitað búin að kaupa fullt af flottum efnum til að gera fleiri ef einhver vill panta – sem er hægt að gera í athugasemdum hér að neðan, eða á Facebook síðunni minni, HandS.

Þennan kjól er hægt að nota spari…eða mér finnst hann meira spari en hversdags. Mig langaði líka að prófa að gera einn sem gæti verið meira hversdags. Ég á slatta af gömlum efnum, sem hægt er að lesa um hér og mig langaði að prófa þetta snið á þeim. Þau eru mörg hver úr ullarblöndu og misþykk en ég tók sem sagt eitt af þynnri ullarblönduefnunum og skeytti því saman við kjólaefni sem ég átti afgang af.

Skemmst er frá því að segja að þetta fallega snið gengur alveg hreint upp, þótt efnin séu án teygju, kjóllinn verður víðari, afslappaður og skemmtilegur. Ég var svo spennt að sýna þér þetta snið þannig læt fylgja hér myndir þó að kjóllinn sé ekki tilbúinn, eins og sést á títuprjónunum og ópressuðum fellingunum 🙂

Takk fyrir að lesa – eigið góðan dag <3

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Áhugaverðar greinar