Það sem þetta ár 2020 er búið að vera skrýtið, allur heimurinn nánast á hliðinni og heilu samfélögin vita varla hvernig hentugast er að haga sér. Mér finnst ég ótrúlega heppin að búa hér á Íslandinu góða, með þríeykið vinalega sem bendir mér og okkur daglega á, hvernig veiran þróast og hvernig við getum brugðist við henni.
Þessi hugleiðing á samt ekkert að fjalla um Covid, það er nóg af öðru fólki sem má sjá um það. Þessi tími hefur samt kennt mér mikið og sýnt mér hvað það er gott að sjá það góða sem í kringum mig er. Þá er ég ekkert einungis að tala um fólkið mitt sem er auðvitað best, en litlir hlutir eins og árstíðir, mold, illgresi, útsýni, sólskin, göngutúrar og gömul efni…algerlega nauðsynlegir finnst mér. Sumarið og haustið hefur því að miklu leyti farið í garðvinnu og göngutúra, þó ég hafi að sjálfsögðu nýtt tímann í Saumahorninu til einhvers 🙂
Undanfarið ár hef ég verið mikið að velta fyrir mér framtíð Saumahornsins; hvað vil ég með það…ef eitthvað? Ég hef tekið að mér ýmiss verkefni sem hafa verið alls konar og þar sem tími minn og afkastageta í Saumahorninu hefur verið bæði takmarkaður hvern dag og óstöðugur, þá hef ég oftar en ekki spurt mig hvort þetta sé það sem ég vilji nýta minn dýrmæta tíma í. Ný veikindi síðasta rúma árið hafa svo hvatt mig áfram í þessum pælingum og ég get glöð tilkynnt það hér og nú að það eru breytingar 🙂
Það allra mikilvægasta sem ég komst að var jú sú staðreynd að Saumahornið mitt er mér virkilega mikilvægt. Þarna get ég komið á hvaða tíma dags sem er og gert það sem ég elska – sauma. Suma daga geri ég lítið annað en að strjúka efnunum mínum og skoða blöðin mín en sem betur fer fjölgar dögunum sem ég sauma og hanna. Saumaskapurinn hefur í gegnum árin, bjargað minni geðheilsu og ég get ekki ímyndað mér lífið án þess að vera að sauma. Hvernig kem ég því þá þannig fyrir að ég get notið tímans sem ég hef í Horninu mínu…ásamt því að fá réttláta umbun fyrir þann tíma sem ég hef í Horninu mínu? Júbb, með því að einbeita mér að eigin hönnun og saumaskap á flíkum sem ég get selt 🙂 Ég hef því ákveðið að hætta alfarið að taka að mér viðgerðir; rennilásaskipti, styttingar á skálmum o.þ.h. Það er einfaldlega of mikil vinna fyrir of lítinn pening…ég er nefnilega ekki mjög dugleg í að setja verðmiða á tímann minn :)+
Þessi ákvörðun hefur einhvern veginn búið til svo mikið pláss hjá mér, bæði í huganum og getu. Síðan ég tók þessa ákvörðun hef ég hannað tvær tegudnir af yfirhöfnum og komið tvenns konar kjólasniðum í sölu. Það er nú ekkert smotteri skal ég segja þér. Kjólasniðið hef ég átt í nokkurn tíma, átti eftir að breyta þeim smá og gefa mér tíma í að velja efni fyrir þá og svoleiðis – nú er það komið 🙂
Yfirhafnirnar eru svo einhvers konar flaggskip fyrir mína hönnun sem framundan er. Mig langar að snúa mér að, annars vegar endurnýtingu efna, og hins vegar silkiefnum. Yfirhafnirnar eru allar saumaðar úr gömlum efnum og unnar uppúr gömlum flíkum. Ég kalla þessar yfirhafnir “Karakterkápur” þótt það megi alveg kalla þær líka jakka – þær eru nefnilega kynlausar. Enn sem komið er, eru tvö snið komin í sölu, annars vegar “Kjarkur” og hins vegar “Þor”. Von er á fleiri sniðum fljótlega. Hugmyndin að nafninu kemur til vegna þess að svona yfirhafnir eru ekki fyrir hvern sem er – það eru bara ákveðnar týpur sem þora að vera í svona flíkum – sterkir karakterar sem þola athygli sem sagt 🙂
Ég hlakka mikið til að fara inn í árið 2021, hlaðið saumaskap, útiveru og öðru skemmtilegu – og ég hlakka til að hitta þig <3
Takk fyrir heimsóknina, ég vona að þér hafi líkað lesturinn <3