Arfurinn

Hmmm hvað á hún við með þessu? Á nú að fara að argintætast eitthvað um arf sem engum kemur við nema fjölskyldunni? Nei nei, engar áhyggjur, í dag langar mig að tala um arfinn sem við fáum í gjöf – karaktereinkenni foreldra okkar 🙂

Ég ólst upp í 6 systkina hópi, yngst og skemmtilegust auðvitað 🙂 Það var mikið að gera á stóru heimili, pabbi vann fyrir fjölskyldunni og mamma var heimavinnandi og var saumakona í hlutastarfi. Það stendur ekki til að fara í saumana á minni fjölskyldu neitt meira nema það sem ég lærði sem barn – lærdómur sem skapaði mig sem manneskju og fylgir mér enn þann dag í dag.

Pabbi og mamma áttu sumarbústað, litla jörð og fallegt hús sem móðurafi minn gaf þeim í brúðkaupsgjöf. Landið hafði afi keypt á árunum 1923-25, byggt þar hús og ræktað landið upp – mögulega er hann frumkvöðull í skógrækt á Íslandi. Hann stóð í tilraunum á innflutningi á trjáfræjum og byggði með þeim, myndarlegan skóg á landinu.

Ég ólst upp í sveitinni, við fórum hverja helgi þegar fært var á veturna og stundum mokuðum við okkur upp að húsi og inn. Um leið og skólinn var búinn þá flutti mamma með okkur uppeftir og pabbi keyrði til og frá vinnu á hverjum degi. Sveitin okkar var alger paradís, vatnið sótt í lækinn í gilinu – á veturna var snjórinn bræddur til að fá vatn í uppvaskið og arininn mikið notaður. Mikil nostalgía svona í minningunni en vá, hvað mamma þurfti að hafa mikið fyrir því að næra okkur og ganga frá. Þarna var verkaskiptingin skýr, mamma verandi langveik með langveikt barn, sá um allt sem fram fór innanhúss og trúlega var mikill léttir fyrir hana hvað við yngstu vorum mikið úti.

Ég elskaði þetta, pabbi var í essinu sínu þarna og fékk útrás fyrir Búfræðinginn í sér. Hann var einstaklega laghentur; smíðaði, lagaði og breytti því sem þurfti og þreyttist ekki á að hafa okkur systkinin með í för og kenna okkur handtökin. Þarna lærði ég að slá með orfi og ljá, að brýna eggina á myllusteini, að rækta jörð og grænmeti, að saga, negla skrúfa og smíða. Það var alveg sama hvað pabbi tók sér fyrir hendur, hann sýndi mér hvernig maður fór að.

Ástæðan fyrir þessu nostalgíuflippi mínu er sú að nýlega var ég að rifja upp æskuna mína og fékk svona flashback 🙂 Að fá að alast upp hjá foreldrum sem treystu mér fyrir þeim verkefnum sem þau lögðu fyrir mig, sem lögðu áherslu á vönduð vinnubrögð, sjálfstæði og frumkvæði. Þarna skapaðist ákveðið sjálfstraust sem ég hef enn þann dag í dag, þori að prófa mig áfram, byrja á nýjum hlutum og læra af reynslunni. Að ég tali ekki um ástríðuna að miðla reynslunni áfram <3

Enginn smá fjársjóður sem ég fékk í arf <3

Takk fyrir lesturinn – ef þér líkaði lesturinn þá máttu gjarnan smella á like eða stjörnur <3

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Áhugaverðar greinar