Facebook
Picture of Sigga

Sigga

Majonesgúrka

Þú ert í fermingarveislu, kökudiskurinn hlaðinn góðgæti, bæði hollu og minna hollu. Þú sest niður og horfir svöngum augum á veitingarnar, ákveður að byrja á brauðtertunni – það er jú eitt af því holla, er það ekki? Gaffallinn sekkur í brauðið og salatið á milli, munnvatnskirtlarnir fara á fullt við tilhugunina um góðgætið. Gaffallinn er kominn hálfa leið að munni, stór brauðtertubiti liggur ofan á, þú opnar munninn…og majonesgúrkan efst á bitanum dettur á kjólinn þinn.

Eins og brauðtertan er góð, getur majonesan verið truflandi

Majones er eitt af mörgu sem er mjög erfitt að ná úr fötum, fitan virðist smjúga inn í minnstu þræðina og sitja þar föst. Eftir stendur flík með fitublett á verulega áberandi stað og fátt um góða drætti þegar kemur að áframhaldandi nýtingu flíkurinnar.

“Sýnileg viðgerð” eða “Visual mending” eins og aðferðin kallast á ensku, er viðhaldsaðferð sem ég er ansi hreint hrifin af. Með því að bæta flíkina með öðru efni en því sem flíkin er út, gerir þú ekki bara við heldur breytir þú flíkinni – stundum það mikið að flíkin verður sem ný. Þetta er hægt að gera hvort sem þú er að gera við göt eða fela bletti og á endanum stendur þú uppi með flík sem er ekki bara nýtileg áfram, heldur áttu flík sem enginn annar á – flík sem þú hefur skreytt að þínu höfði 🙂

Það skemmtilega er að flíkin þarf ekki einu sinni að vera eitthvað biluð, ég á t.d. kjól sem ég nota ekki. Ég keypti kjól fyrir mörgum árum (ætlaði að vera virðuleg móðir fermingarbarna) og ég skil ekki enn þann dag í dag af hverju ég keypti hann. Kjóllinn er einlitur, ljósgrár…eitthvað sem ég bara klæðist ekki svona einu og sér en hann er fullkominn til að nota í svona skemmtilegheit.

Það er margt hægt að gera til að fela blettina – eiginlega spurning um hugmyndaflug

Þegar við erum að skreyta flíkurnar er aðalatriðið að nota hugmyndaflugið, ef þú ert með blett þá er gott að nota hann sem útgangspunkt – og svo bara leika sér áfram. Mér finnst gaman að raða saman bútum og sjá hvernig hægt er að leika sér áfram. Ég á mikið af afklippum frá saumaskapnum mínum og þær eru tilvaldar í svona “blettaverkefni” Ég einfaldlega raða þeim eins og mér sýnist bútarnir koma vel út á flíkinni, síðan skoða ég hvernig ég vil festa þá – það er hægt að gera á ýmsan hátt, t.d. með því að handsauma hvern og einn bút eða renna þeim í saumavélina.

Ég hvet þig til að skoða flíkurnar þínar sem þú geymir í skápnum/geymslunni og sjá hvort þú getir ekki hresst þær við með skemmtilegri skreytingu. Það er hægt að nota alls konar; tölur, perlur, pallíettur og ef þú er lítið í saumaskap og efnaafgöngum þá getur þú notað búta úr annarri flík sem þú ert ekki að nota…

Nýtum fötin okkar betur og minnkum fatasóun!

Takk fyrir að lesa – ef þér líkar þá máttu deila gleðinni með öðrum <3

Saumasaga Siggu

“…uhhh, mögulega geturðu breytt honum…” Uppúr árinu 2000 hófst mín vegferð í saumaskap. Það þróaðist þannig að ég varð óvinnufær á hinum almenna vinnumarkaði og

Lesa áfram »