Brotið og bramlað

Framkvæmdir – fyrsta stig

Sníðaborðið komið með nýtt hlutverk

Ég veit ekki hvort það er Hrúturinn í mér eða eitthvað annað en ég fæ reglulega kitl í kroppinn til að breyta í kringum mig. Kannski er þetta bara einhvers konar hreinsun, ég veit það ekki og er bara nokk sama því mér finnst breytingar skemmtilegt ferli þótt það sé erfitt á stundum.

Þegar kemur að Saumahorninu þá hendi ég nánast engu…jú, ónýtum saumanálum og pakkningum utan af dóti en þegar kemur að efnum og flíkum þá virðist ég endalaust geta fundið pláss fyrir það sem kemur inn – enda er endurnýting ástríða á háu plani og ég tel mig alltaf geta búið til eitthvað nýtt úr gömlu. Það var því komin veruleg þörf fyrir að fara í gegnum skápa, skúffur og hillur…og í raun búa til pláss.

Veggurinn sem stendur til að opna, sá sem Karakterarnir hanga á.

Þessi veggur er holur að innan. Þegar við fluttum inn í húsið var skápur þarna fyrir innan – sko hinum megin frá. Inni í húsinu var þetta skápur sem geymdi þvottavél og þurrkara, sem sagt, djúpur skápur. Þessum skápi var lokað í framkvæmdum inni fyrir fjórum árum og fljótlega fór ég að hugsa mér gott til glóðarinnar, að nýta þetta rými inni í veggnum í Saumahorninu. Í lok janúar var svo komið að því, veggurinn skyldi opnaður og byggðar hillur, síðan yrði öllum húsgögnum gefinn nýr staður, annar veggur opnaður, einangrað, skipt um glugga og hurð.

Nújæja, Hrúturinn kominn langt á undan sér í framkvæmdunum enda frægur í sínum hópi fyrir að telja hlutina einfaldari en þeir reynast. Allt svona tekur auðvitað sinn tíma, að ég tali nú ekki um þegar Hrútur vill endurnýta. Ég reyni að nýta allt sem ég get og fór í gegnum allt húsið til að finna allar mögulegar spýtur og fjalir til að nota. Til að gera langa sögu aðeins styttri þá er fyrsta stigi framkvæmda er nánast lokið, veggurinn hefur verið opnaður, hillum komið fyrir og húsgögnum raðað upp á nýtt. Lengra komst ég ekki í þetta sinn, ég kalla þetta fyrsta stig framkvæmda því enn er all nokkuð langt í land.

Ég leyfi ykkur að fylgjast með ferlinu hér á blogginu, næsta stig hefst í vor þegar skipt verður um hurð – mögulega eitthvað meir en ég ætla ekki að skipuleggja það núna 🙂

Mér finnst sjálfri skemmtilegast að skoða myndir af svona ferli – ég vona að þú njótir.

Það er ennþá all nokkuð eftir sko; setja upp strauaðstöðu, snúa sníðaborðinu og taka til í horninu sem ég sýni ekki hér 😉 – hornið sem verður setaðstaða og hvíld. Þetta kemur allt með kalda vatninu, það skiptir mig mestu máli að vera komin með aðstöðu til að sníða og sauma 🙂

Takk fyrir að lesa og skoða – þú mátt gjarnan deila þessum pósti með þeim sem gætu haft áhuga <3

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Áhugaverðar greinar