Búningaþema

Stundum hefur okkur hjónum verið boðið í svona þemapartý gegnum árin, mér finnst þau ekkert svakalega skemmtileg því ég er ekkert rosalega hugmyndarík þegar kemur að römmum. Hahaha já ég sagði það, ef ég er sett í ramma og á að finna uppá einhverju – þá er eins og heilinn á mér fari bara í frystinn, í pásu í smá stund. Ég læt mig samt hafa það en ekki búast við að vera boðið í búningapartý til mín 🙂

Eitt svona boðið var alveg sérstök áskorun, við áttum að mæta í Skota – einhverju, karlmenn áttu að mæta í Skotapilsi og öllu sem því tilheyrði og konurnar áttu að mæta í stíl við eiginmanninn – og í síðkjólum. Síðan fylgdi þessari áskorun alls konar vitleysa sem ég er nú að mestu búin að gleyma.

Nema hvað, góðu ráðin voru dýr í þetta skiptið, ekki átti Héðinn Skotapils en ég átti hins vegar nokkur svona köflótt efni – galdurinn var hins vegar að fá okkur í stíl. Við eiginlega ákváðum að vera þannig „Klan“ að efnin blönduðust (það er víst þannig að hver ætt í Skotlandi á sína eigin útfærslu á köflunum í pilsefninu). Þannig gat ég búið eitthvað til úr einhverju af efnunum mínum og svo myndi Héðinn leigja sér Skotapils og ég gera slaufu handa honum í stíl við dressið mitt – ekki alveg reglurnar sem lagt var upp með en hvað um það.

Ég skellti mér því í Saumahornið mitt og fór að grafa í kassana, ég fann gamalt, fallegt pils úr svörtu sléttflaueli og ég fann efni sem hentaði sem „Skotapilsefni“ Þetta var alveg ekta efni, einhver hafði meira að segja byrjað að sauma sér Skotapils úr því en gefist upp því það voru sylgjur og plíseringar í efninu.

Ég byrjaði á því að pressa plíseringarnar úr hálfsaumuðu pilsinu – eiginlega til að sjá hvað þetta væri mikið efni. Ég fann síðan annan bút af sama efni og þá var ég bara í góðum málum.

Ég ákvað að hafa neðri hlutann af kjólnum úr svarta flauelspilsinu og setja síðan eitthvað af Skotaefninu að ofan. Ég ákvað strax að þetta yrði kjóll sem ég myndi ekki eiga og því lagði ég akkúrat enga áherslu á sníðaskap – ég vildi halda eins miklu af efninu án þess að klippa það niður, til að eiga það í merkilegra verkefni 🙂

Ég opnaði pilsið að ofan, tók strenginn af því ég vildi hafa síddina niður í gólf, festi þetta svo á Gínu og fór bara í að prófa mig áfram við að vefja efninu einhvern vegin utanum þannig að þetta myndi hylja kroppinn minn. Ég átti gæjalegan rennilás með blingi og ég tengdi efnið saman með honum og lét hann vera í bakið. Síðan tók ég hinn bútinn af efninu, bjó til lengju af efninu og setti í það plíseringar – mældi bara og títaði annan endann, gerði svo það saman á hinn endann og pressaði svo.

Þessa lengju festi ég svo yfir öxlina – tilgangurinn var aðallega að halda toppnum uppi því ekki nennti ég að vera að hífa hann stanslaust upp. Ekki gleyma því að toppur og pils voru á þessum tímapunkti saumuð saman og ég er ekki það barmmikil að hann haldi þessari þyngd uppi 🙂

Þess má geta að Klanið okkar fékk það skemmtilega nafn McCVities (gott báðum megin) og ástæða þess að enginn þekkir til þessa Klans er sú að þetta er eina Klanið í sögu Skotlands sem hafði það eina hlutverk að njósna – var sem sagt í felum 😉

Hér má svo sjá endanlega útkomu, slaufan og við hjónin saman – þess má geta að “kjóllinn” hefur verið tekinn í sundur og efnið notað í annað 🙂

Takk fyrir að lesa og skoða myndir – þessu má deila ef þér líst vel á <3

Allt það besta til þín

Sigga

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Áhugaverðar greinar