Reglulega heyrum við fréttir af fatafjöllunum sem við vesturlandabúar “gefum” í góðgerðargáma – fatnaður sem oft á tíðum endar í landfyllingum eða eyðimörkum minna efnaðri landa. Við heyrum meira að segja af verslunum sem “henda” óseldum fatnaði sem “kominn er úr tísku” þann mánuðinn.

Vissir þú td. Að Rauði Krossinn á Íslandi fær yfir 2000 tonn af fatnaði og textíl inn á borð til sín á ári? Bara Rauði Krossinn. Þá erum við ekki að tala um Hertex, ABC nytjamarkaði, Samhjálp, Konukot, Fjölskylduhjálp Íslands, Mæðrastyrksnefndir…og öll önnur frábær samtök sem taka við fatnaði og textíl.

– og vissir þú að af þessum 2000 tonnum nýtast einungis 500 tonn hér á landi?

Mér finnst virkilega mikilvægt að við séum meðvituð og að við kennum okkar börnum að vera það líka

– að við leggjum okkur fram við að vinna gegn þessu viðhorfi að alltaf megi bara kaupa nýtt.

Hvernig getum við nýtt fötin okkar betur – notað þau lengur og minnkað fatafjöllin í heiminum?

  • þvo sjaldnar, oft er nóg að viðra flíkina eða leggja hana í bleyti í stað þess að skutla í þvottavél. Þvottavélin losar um plastagnir sem eru í flíkinni, agnir sem enda í sjónum og hafa áhrif á lífríkið – vélin slítur líka flíkinni hraðar 
  • sleppa þurrkaranum – hann slítur flíkinni meira út en snúran  
  • gera við ef bilar, stoppa í göt, laga saumsprettur
  • vinna á blettum, í stað þess að nota hörð efni sem leysa upp erfiða bletti er hægt að setja bætur og fela þannig blettina – það fer betur með efnið í flíkinni. oft skilja hreinsiefni eftir sig blett í efninu og þá ertu á sama stað og áður – með blett í flíkinni
  • hressa upp á flíkina þegar þú nennir hana ekki lengur, skreyta á ýmsan hátt, breyta hálsmáli eða framan á ermum, setja bætur, perlur eða annað sem hressir uppá
  • þegar flíkin hættir að passa; víkka/þrengja, breyta ermum (víkka handveginn eða skipta um efni í ermunum, taka kjól í sundur og búa til pils/topp með því að skella teygjanlegu efni í strenginn

Þegar kemur að breytingum á fötum, þá eru í raun engin takmörk á hvað hægt er að gera

eina…eða tvennt…eða þrennt sem þarf er hugmyndaflug, þor til að klippa og kjarkur til að prófa sig áfram. Að mínu mati er ekki hægt að skemma breytingar á flík, stundum fara hlutirnir ekki eins og upphaflega var planað en með því að hafa opinn huga, finnur maður alltaf nýja leið.

Þegar þú svo kaupir föt, kannaðu hvaðan flíkin kemur, hvar hún er framleidd og hvaða efni eru í henni

– og gerðu ráð fyrir að nota hana minnst 30 sinnum

Það er því gott að hafa á bakvið eyrað að velja flík úr gæðaefnum og flík sem passar við eitthvað af því sem þú átt nú þegar í fataskápnum. Þegar við erum meðvituð um hvað við kaupum þá smám saman byggjum við upp klæðaskáp með margnota fötum (já, sum föt eru nánast einnota í dag v/lélegra gæða) sem passa saman á margvíslegan hátt.

Það getur t.d. verið kjóll sem bæði er hægt að klæða upp og niður;

– sem sagt, fara í spariskóna og setja fallegt skraut um hálsinn – og annan dag, skella sér í gallabuxur eða leggings innan undir og hefðbundna götuskó við.

Þetta getur líka átt við um buxur, skyrtur, peysur og jakka.

Karlmenn geta þetta líka;

– jakkaföt er hægt að klæða upp og niður, gallabuxur og bolur við jakkann eða peysa utan utan yfir bolinn og jakkafatabuxurnar við…

 

Lítum okkur nær, það er hellingur sem við getum gert til að minnka fatasóun og hvert einasta lítið skref, skiptir máli – fyrsta skrefið er að kaupa minna!

Ég skil þetta myndband eftir hér fyrir áhugasama https://www.textilemountainfilm.com

Takk fyrir að lesa, ef þér líkar máttu gjarnan deila <3

Allt það besta til þín og þinna

Sigga

Áhugaverðar greinar