Facebook
Picture of Sigga

Sigga

Sjálfbær fatastíll – 5. hluti

Fataskápurinn

Í hvernig flíkum líður þér best? 

Ef við ætlum að vera sjálfbær í fatastíl, viljum byggja upp fataskápinn, þá verðum við að skoða aðeins okkar innri manneskju; kafa í hvað við viljum í alvöru, hvaða týpa við erum innst inni – erum við kvenlegi karakterinn sem vill sýna línur, erum við karlmannlega manneskjan sem vill formfastar flíkur – eða erum við afslappaða persónan sem vill allt þægilegt? Kannski líka eitthvað þarna á milli – eða öllu blandað saman?

Skiptir þú fötunum upp í „daglegföt“ og „spariföt“ eða notar þú öll þín föt jafnt.

Útgangspunktur við fataval ætti alltaf að vera vellíðan; að fötin lyfti okkur upp, að okkur líði vel í þeim – og í mörgum tilfellum, rífi upp í okkur sjálfstraustið.

Mörg okkar eru gjörn á að langa til að vera í ákveðinni tegund fatnaðar en kaupa svo oft eitthvað allt annað. Útgangspunkturinn þarf alltaf að vera við sjálf; að við hlustum á hvað okkar eigin innri rödd segir okkur, ekki vinir og vandamenn og ennþá síður tískustraumar. Þeir koma og fara.

Ég segi fyrir mig, ég er mjög mismunandi karakter; stundum langar mig að vera mjög kvenleg, set up skartgripi og fer í fallega kjóla, hælaskó og sokkarbuxur. Stundum langar mig að vera strákaleg og töffari. Þá fer ég í eitthvað allt annað en staðreyndin er sú að mér líður mjög misjafnlega eftir dögum og mér finnst gaman að eiga fatnað sem fellur bæði að kven- og karlhliðinni minni.

Letiföt eða spariföt – nema hvoru tveggja sé

Ég td. hef ég gegnum árin skipt mínum flíkum upp eftir hutverkum; letiföt, spariföt, garðföt, dagleg föt – ég er hins vegar að auka það að eiga bara almennt falleg föt sem ég nota jafnt yfir allt – ég fer kannski ekki í silkikjól í garðinn en ég klæðist honum gjarnan á letidögum. 

Letidaga kalla ég þá daga þegar orkan mín er lítil, kroppurinn verkjaður og þreyttur og framtaksemin er í lágmarki. Ég er búin að uppgötva að fyrir mína sál, skiptir miklu máli að klæðast fallegum fötum. Það gerir minni sál gott því sálin á það til að líka illa við letidagana en með því að klæðast fallegum fötum…tjah, það gerir mér eitthvað gott. 

Svo eigum við það bara skilið sem manneskjur, að klæðast fallegum fötum alla daga – það finnst mér.

Ég elska jakkaföt, ég á ein og mig langar í fleiri. Þegar ég klæðist jakkafötum þá vaknar minn innri töffari og strákurinn í mér. Mér líður vel í jakkafötum og sé mig alveg eiga jakkaföt fyrir letidaga – hvort sem ég klæðist öllu settinu eða ekki 😉

Ég elska líka aðsniðna kjóla og ég fer oft í þeim á mannamót. Aðsniðnir kjólar vekja mína innri dívu, mér finnst ég kvenleg og skvísa. Staðreyndin er hins vegar sú að til þess að vera í aðsniðnum kjólum, þá þarf sjálfstraustið mitt að vera gott. Það á það til að sveiflast, sérstaklega eftir að ég byrjaði á breytingarskeiðinu og kroppurinn fór að haga sér eins og harmonikka. Ég get ekki treyst því að ég passi í aðsniðinn kjól, þótt ég hafi saumað hann fyrir einum mánuði.

Lausnin við þessu hefur verið að ég sauma víða kjóla og nota í þá einstök og falleg efni – og leyfi þar með litagleðinni minni að leika lausum taumi. 

Persónulega finnst mér þetta snilldar lausn og nota hana mikið.

Áttu þér uppáhaldsliti?

Það getur verið góður útgangspunktur þegar þú byggir upp sjálfbæran fataskáp. Litir sem við höldum uppá, eru oft litir sem fara okkur vel. Stundum þarf að stilla til tóninn; appelsínugult og appelsínugult er ekki endilega sami liturinn 😉

Við erum svo misjöfn sem manneskjur; sumir vilja vera í einlitum, helst dökkum fötum á meðan aðrir eru gulir sem sólin. Við þurfum að finna út hvað við viljum.

Ef maður skoðar stílistaþjónustu, þá er oft talað um svokallaðan „capsule wardrope“, að eiga sér ákveðnar grunnflíkur; buxur, skyrtu, jakka og kjól. Þessar flíkur eru þá gjarnan einlitar og í hlutlausum litum (hvítt, svart, blátt, beige…svoleiðis litir). Síðan byggir fólk upp fylgihluti sem poppa hlutlausar flíkurnar upp, setja punkt yfir i-ið og fullkomna lúkkið.

Ég viðurkenni að ég hef ekki mikið vit á svona stíliseringu, ég hef í gegnum árin lært að fylgja minni tilfinningu. Fyrir utan það þá elska ég að eiga slatta af fötum og ég elska að eiga marga skemmtilega liti og litaglaðar flíkur. Hefðbundinn stílisti kæmist skammt með mig ef hann ætlaði að setja mig í beige jakkadragt og poppa mig upp með hálsklút 🙂

Svona er þetta mismunandi og þeim mikilvægar að við finnum okkar eigin stíl, á okkar forsendum, hlustum á okkar innri rödd og hvernig okkur líður í flíkinni.

Gangi þér vel – þetta er síðasti pósturinn í bloggröðinni um Sjálfbæran fatastíl. Smelltu á að fylgja síðunni og fáðu tilkynningu þegar mér dettur í hug að skrifa eitthvað fleira hér inn 🙂

Takk fyrir lesturinn – Allt það besta til þín og þinna <3

Sigga

Saumasaga Siggu

“…uhhh, mögulega geturðu breytt honum…” Uppúr árinu 2000 hófst mín vegferð í saumaskap. Það þróaðist þannig að ég varð óvinnufær á hinum almenna vinnumarkaði og

Lesa áfram »