Facebook
Picture of Sigga

Sigga

Jesús Pétur í allan vetur

…þetta sagði mamma alltaf þegar hún var gleðilega hissa 🙂

Ég legg nú ekki í vana minn að skrifa ágrip af árinu sem er að líða, hins vegar hefur árið verið mjög svo tíðindasamt að það hefur varla farið úr huga mér að skrifa nokkur orð. Þar sem ég er búin að læra að hlusta á mína innri rödd, kemur hér ágrip af liðnu ári 🙂

Bátnum ruggað

Jólagjöfin frá syninum og kærustunni hans – alveg minn húmor 🙂

Ég byrjaði árið 2021 á að ljúka meðferð á Taugadeild Reykjalundar þar sem ég fékk betri innsýn í taugaröskunarsjúkdómin FND sem ég greindist með árið 2019. Frábært fólk sem hjálpaði mér að skilja þennan skrýtna sjúkdóm, aðlagast honum og sættast við hann. Því miður hefur mér ekki tekist að ráða niðurlögum einkenna en boj ó boj, það sem ég hef unnið í sjálfri mér.

Innivinnan mín hefur staðið yfir í mörg hjartans ár, eiginlega frá því ég fór á örorku 2004 en við FND greininguna hófst hún fyrir alvöru finnst mér. Þetta ár 2021 var árið sem ég byrjaði að uppskera fyrri ára vinnu. 2021 er árið sem ég loksins kynntist henni Siggu, lærði að setja mörk, að standa með sjálfri mér af fullum þunga, vakna til vitundar um eigið ágæti og síðast en ekki síst, að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór.

Þessi vegferð mín hefur ekkert verið án fórnarkostnaðar – það er nú oftast þannig að þegar maður fer að rugga bát vanans þá bregst fólkið í kringum man við – ýmist með því að halda sér fast og fylga manni alla leið, eða hoppar úr. Ég var svo heppin að þeir sem héldu sér fast voru mitt allra nánasta fólk; Héðinn maðurinn minn, börnin okkar tvö, systkini og systkinabörn – fólkið sem skiptir mig allra mestu máli og hefur staðið við bakið á mér og hvatt mig áfram gegnum þetta erfiða tímabil.

Þeir þekkja það sem hafa farið í vinnu með sinn innri mann að þetta er allt annað en auðvelt, fólk hverfur úr lífinu og maður uppgötvar hluti/hegðun um sjálfan sig sem maður er ekkert sérstaklega ánægður með. Ég get hins vegar staðfest það að þegar hurð lokast – þá opnast önnur. Í kjölfarið hafa opnast svo margar dyr; gamall félagsskapur hefur breyst í dýrmæta vináttu, nýir og dásamlegir vinir hafa komið inn í lífið mitt, fjölskyldubönd hafa styrkst og endalaus tækifæri.

Innivinnan mín og einkenni FND (sem í mínu tilfelli eru m.a. ofurviðkvæmni gagnvart öllu áreiti; margmenni, síbylju, hnerra, hósta, hlátri og öðrum hvellum hljóðum) hafa gert það að verkum að ég hef lítið sem ekkert farið út úr húsi þetta ár. Sumum myndi finnast það hörmung, ég hins vegar er að springa af þakklæti – nándin við mitt dýrmætasta fólk hefur styrkst og lyfst í hærri hæðir og þeir sem vilja styðja mig hafa einfaldlega komið til mín 🙂

Breyttar áherslur í Saumahorninu

Ég skellti mér í nám á Bifröst í byrjun árs “Máttur Kvenna – rekstur fyrirtækis” – já, þarna var hafið fyrsta skref í að fullorðnast og þarna komu fyrstu nýju og dásamlegu vinirnir inn í mitt líf. Alveg magnað hvað hægt er að tengjast á ekki lengri tíma og með covid takmarkanir. Ég hlakka mikið til að hitta þessar skvísur á nýja árinu, það var með þeim sem fyrstu perurnar kviknuðu varðandi breytingarnar í Saumahorninu – að deila minni þekkingu og reynslu til þeirra sem langar að sauma. Að kenna fólki að breyta fötunum sínum til að nýta þau lengur.

Námið á Bifröst gaf mér það sjálfstraust sem ég þurfti og ég auglýsti Vinnusmiðju í fatabreytingum – það var efni í blogg póst sem hægt er að lesa hér.

Ég byrjaði með einkanámskeið í saumaskap og kenndi m.a. henni Hafdísi Eyju sem hannaði fallega nafnspaldið mitt og logo.

Svo er það nú oft þannig að eitt leiðir af öðru, góða fólkið hélt áfram að koma inn í lífið mitt og ein af þeim er hún Silja – hún er snillingur í að styðja frumkvöðla eins og mig sem þarf m.a. að passa orku, verki og einkenni taugaröskunar. Silja hjálpar frumkvöðlum að skipuleggja fyrirtækið sitt kringum lífið og þær aðstæður sem þeir lifa við. Hjá Silju duttu svo síðustu púslin á sinn stað þegar hún hjálpaði mér að þrengja starfsemi Saumahornsins þannig að ég gæti unnið með mínar ástríður; sauma, endurvinna og kenna – ég er nefnilega kennaramenntuð og elska að deila minni reynslu með þeim sem áhuga hafa. Niðurstaðan varð sú að ég  legg aðal áherslu á mína áralöngu ástríðu að breyta og bæta klæði og einbeiti mér að endurnýtingu klæða og fatabreytingum. Ég mun halda námskeið með þeim fjölda þátttakenda sem ég ræð við og get þjónustað á bestan hátt – og ég verðlegg mig í takt við þá þjónustu sem ég býð upp á.

Það var eins og við manninn mælt, þegar ég fann hilluna mína, eignaði mér hana og settist, þá fóru hlutir að gerast – góð vinkona mín og stuðningsbomba hafði samband við Landann og kom mér í viðtal þar – viðtalið má sjá hér – Takk Sirrý <3 . Þá var ég þegar byrjuð að halda vinnusmiðjur í samstarfi við Kvenfélagasamband Íslands og búin að skipuleggja Grunnnámskeið þannig að flæðið var fullkomið og mikill áhugi bæði á Grunnnámskeiðunum og Vinnusmiðjum. Karakterarnir mínir sem ég hanna úr vintage- og endurnýttum efnum hafa fengið þá athygli sem þeir eiga skilið og ég er virkilega spennt fyrir nýju ári þar sem ég sé nú loksins möguleika á að byggja upp eigin rekstur á mínum forsendum.

Fjölskyldan

Fjölskyldulífið er búið að vera algerlega frábært, tvíburarnir okkar fallegu og heilsteyptu blómstra, líður vel og eru hamingjusöm. Þau skelltu sér bæði í nám í haust, eftir árshvíld eftir stúdentshúfuna, Aron Yngvi fór að læra rafvirkjun og Freyja Ósk flutti til Englands til að læra afbrotafræði. Héðinn og ég hafa verið í “hálfri-fjarbúð” þar sem hann hefur verið að þjóna á veitingastað í Grundarfirði, auk þess sem hann breiðir út hamingju af sinni einstöku snilld. Systkini og systkinabörn hafa verið dugleg að heimsækja mig og styðja mig eins og þau geta. Ég hef ómetanlega gott fólk í kringum mig og hlakka til nýja ársins og frekari samveru.

Takk fyrir

Ég get ekki sagt annað en að árið mitt 2021 hafi verið algerlega frábært, það er langt síðan svona margir góðir hlutir komu til mín og mér finnst ég loksins vera að komast upp úr margra ára, djúpu fari veikindaviðhorfs – veikindin fylgja mér áfram en ég er full trúar á að ég geti skipulagt mitt fyrirtæki í takt við kroppinn minn og hans óskir 🙂

Nýja árið verður ár gleði, nýrra kynna, vinnusmiðja, námskeiða og endurnýtinga.

Ég þakka fyrir árið 2021 og býð 2022 hjartanlega velkomið.

Takk fyrir að lesa, ef þér líkaði lesturinn máttu gjarnan smella læki á bloggið <3

Saumasaga Siggu

“…uhhh, mögulega geturðu breytt honum…” Uppúr árinu 2000 hófst mín vegferð í saumaskap. Það þróaðist þannig að ég varð óvinnufær á hinum almenna vinnumarkaði og

Lesa áfram »