Ég er búin að vera að leika mér með sniðin sem ég hef búið til. Tískan í dag er svo einföld, bolir og kjólar frekar víðir, beint snið og stundum stroff. Ég er ein af þeim sem hef þennan beina vöxt, þ.e. það vantar á mig mittið – svona að mestu leyti 🙂 Ég lít því út eins og tunna þegar ég fer í svona hólk-sniðna flík. Ég bý þess vegna til mitti á öll mín snið 🙂 Það góða er líka að sniðið sem ég bjó upphaflega til, hentar í svo margt og svo er svo auðvelt að sníða með því…
Ég legg bara efni saman á lengdina, þ.e. tvöfalda sídd. Síðan brýt ég efnið saman í miðju og legg sniðið ofaná. Þannig sníð ég bæði fram-og bakstykki og ermar, allt í sömu andránni. Afklippuna nota ég svo í stroff og kraga ef það á að vera.
Þetta einfalda snið er ég svo búin að leika mér með fram og tilbaka og sauma eftirfarandi flíkur – allar uppúr sama sniðinu.
Þunnur, kragalaus og með svörtu stroffi á ermum og að neðan.
Þunnur prjónakjóll með kraga og svörtu stroffi að neðan og á ermum…
Þessi þrír eru með sama efni í kraga og stroffi á ermum – en án stroffs að neðan…síddin er svo eftir óskum þess sem kaupir.
Þunnur siffonkjóll með stroffi á ermum…
…og síðast en ekki síst, opin ullarpeysa – þessi er reyndar ennþá í vinnslu.
Svo er það nú þannig að sum efni eru með ansi sterkt brot í miðjunni, búin að vera mislangan tíma uppvafin á stranganum og þá getur verið erfitt að losa sig við brotið. Ég er að vinna með yfir 20 ára gömul efni og þá þýðir ekkert annað en að þvo flíkina og pressa svo brotið úr.
Þessa straugræju fann ég í Elko, legg þetta á efnið og strauja, þetta þolir allt að 200° hita og ég legg þetta á efnið í staðinn fyrir blautan klút – snarvirkar á öll þau efni sem ég hef prófað þetta á og svo miklu þægilegra en að vinda klút og leggja ofaná 🙂
Svo lenti ég í þessu um helgina, kjóllinn pantaður og á leiðinni norður á Akureyri – ef vel er að gáð þá sést rönd niður eftir miðjum kjólnum. Þessi brotalína var komin með litabreytingar…og fór hvorki við þvott né pressun.
Nú voru góð ráð dýr, fyrst var ég að spá í að setja leðurrönd yfir línuna en fannst það einhvern veginn svo “reddilegt”. Ég endaði með að klippa kragann og ermarnar af…
…og sníða svo nýjan búk.
Í þetta skiptið varð ég að sníða fram-og bakstykkið hvort í sínu lagi en náði með því að losna við brotið…
Og þar sem ég sneið nýja búkinn alveg eftir þessum gamla þá pössuðu ermarnar eins og flís við rass 🙂
Þá var ekkert eftir nema skella kraganum á, merkja og falda…og voilá
Kjóllinn komst til Akureyrar og nú bíð ég spennt eftir að heyra hvernig kúnnanum líst á 🙂