Facebook
Picture of Sigga

Sigga

Að breyta sniði

Ferming tvíburanna okkar nálgast óðfluga, vika til stefnu, undirbúningur á fullu og tímanum í saumahorninu er fórnað fyrir undirbúning. Áfram heldur samt saumaskapurinn á fermingarkjól dótturinnar – en hann fáið þið ekki að sjá fyrr en eftir fermingu 🙂

Mér finnst reyndar mjög gaman að hafa nóg að gera – tók t.d. að mér að hafa yfirumsjón með skipulagi kórtónleika núna í miðjum fermingarundirbúningi 🙂 Ég er sem sagt í Kvennakór Kópavogs og við erum að halda vortónleika núna 22. apríl. Ég skellti mér í að sauma kjól fyrir tónleikana – við eigum að vera í svörtum kjól, hnésíðum og ég á engan þannig.

Nema hvað, ég skellti mér í að rekja upp pils sem mamma hafði saumað fyrir einhverjum tugum ára og stefndi á að nota efnið. Kíkti í Burdablöðin mín, fann skemmtilegt snið og teiknaði það upp.

Þegar ég svo ætlaði að fara að sníða kom í ljós að efnið frá pilsinu var ekki nógu breitt… Alger óþarfi að deyja ráðalaus, ég fann annað efni, örlítið þynnra og sneið í það. Ég þurfti að lækka örlítið mittið – er með langa bakið hennar mömmu 🙂

Til að finna út hvort mittishæðin er rétt (bakið langt, stutt eða meðal) Þá mælir maður frá öxl og niður í mitti. Í þetta skiptið gerði ég þetta svona, batt band um mittið á mér…

Mældi svo bæði að framan og aftan, frá öxl og niður að bandinu. Ég veit að þetta er ekki skotheld mæling þarna á myndunum en þetta er nóg fyrir sniðið sem ég valdi fyrir þennan kjól. Auðvitað er betra að hafa aðstoðarmanneskju og mæla nákvæmlega 🙂

Þegar maður lengir búkinn þá þarf að klippa sniðið í sundur í mittinu og bæta lengingunni þar inn, samkvæmt minni mælingu þá þarf að lækka mittið um 3 cm.

Bakstykkið er ekkert mál, maður bara strikar eftir mittismerkinu, þvert yfir og klippir í sundur. Framstykkið var örlítið flóknara því brjóstsaumurinn nær niður fyrir mittið. Þá er nauðsynlegt að brjóta sniðið eins og það verður saumað til að finna mittið alla leið, leggja kvarðann og strika beina línu…                      

Þá er að leggja á efnið…

Hér er auðvitað mikilvægast að leggja sniðið á réttan stað og vera viss um að mæla rétt bil.

Þetta er að mínu mati það flóknasta við saumaskapinn, að mæla allt rétt og leggja sniðið rétt á efnið. Þegar það er allt komið á hreint er eftirleikurinn auðveldur – klippa og sauma saman.

Svona lítur kjóllinn út þegar búið er að sauma hann saman

Það kom svo í ljós að kjóllinn er allt of stór, sem betur fer er systir mín oggu stærri en ég og hún ætlar að máta þennan – annars verður hann bara seldur einhverri sem vill 🙂

Ég endaði svo á að nota annað snið – þetta hérna – hægt að nota það í ótal tegundir kjóla

…og saumaði úr pilsefninu góða. Ég er ekki búin með kjólinn en kem með mynd þegar hann er tilbúinn.

Takk fyrir mig 🙂

Saumasaga Siggu

“…uhhh, mögulega geturðu breytt honum…” Uppúr árinu 2000 hófst mín vegferð í saumaskap. Það þróaðist þannig að ég varð óvinnufær á hinum almenna vinnumarkaði og

Lesa áfram »