Ný prjónauppskrift

Það hefur lítið verið að gerast í saumahorninu þessa vikuna, ég er ennþá að vinna mig upp í vinnugetu eftir síðasta verkjakast. Þess vegna eyddi ég vikunni í að rifja upp og endurskrifa uppskrift að hrikalega töff ermum – þó ég segi sjálf frá 🙂

Ermarnar eru úr Léttlopa og Álafosslopa og uppskriftin kemur hér 🙂 Myndirnar eru frá sumri eins og sést og módelið er hún Gunnhildur besta mín.

Góða skemmtun og endilega látið heyra í ykkur ef þið prófið uppskriftina 🙂

Efni Létt lopi og Álafoss lopi með yrjum stærð sm/LxL

Prjónar nr. 5 og 7 – sokkaprjónar eða langur hringprjónn

Uppfit á prjóna nr. 7, 40/45 lykkjur úr Álafoss Lopa, prjóna 18/20 umf stroff, 3sl og 2br. Skipta á prjóna nr. 5, prjóna með létt lopa þar til ermi mælist 18/20cm eða nær upp að olnboga.

Þá er aftur skipt á prjóna nr. 7, prjónað slétt og aukið út í 2. hv. Lykkju út fyrstu umferð (prj 2l og auka út aftan í seinni)

Ermin prjónuð þar til hún mælist 53/58cm – eða í hentuga lengd. Smart að hafa ermina lengri en handleggur mælist, þá púffar hún flott við olnbogan.

Bakið prjónað fram og tilbaka – slétt prjón þar til það mælist 54/59cm eða í hentuga breidd.

Seinni ermi er prjónuð í beinu framhaldi af bakinu, bakið tengt í hring og prjónað áfram þar til komið er að því að skipta um prjóna – ég mæli þetta alltaf með því að leggja ermarnar saman J

Munið að taka úr í 2.hv. lykkju í síðustu umferð áður en skipt er á prjóna nr. 5.

Stroff

Lykkjur teknar upp á prjóna nr. 7 með Álafoss lopa með yrjum – allan kantinn á bakstykkinu. Prjóna 10 umf. stroff, 3sl og 2 brugðnar. Fella af lykkjur á neðri hluta bakstykkis og 15 lykkjur inn á efri hluta bakstykkis hvoru megin. Restin af lykkjunum á efri hluta bakstykkis notast í kragann

Kragi

Kraginn er prjónaður á prjóna nr 7 eins og stroffið. Á prjóninum eru 25/30 lykkjur frá stroffi, hægra megin eru fitjaðar upp 15 lykkjur framan við strofflykkjurnar. Síðan eru strofflykkjurnar prjónaðar og aftan við þær, vinstra megin á ermunum eru fitjaðar upp 38 lykkjur – þá eru síðustu 3 lykkjurnar sléttar á utanverðum kraganum.

Kraginn er síðan prjónaður á sama hátt og stroffið, þ.e. 3sl og 2br – fram og tilbaka þar til kraginn mælist 20cm. Fellið af.

Ég setti svo krækjur á minn kraga – vinstra megin setti ég tvo króka fremst á kragann utanverðan og hægra megin setti ég lykkjurnar, rétt innan við öxlina – á innanverðan kragann. Krækjurnar er best að mæla á sjálfan sig og setja þar sem best hentar hverjum og einum. Á myndunum sést hvernig kraginn getur verið laus og svo kræktur. Það er alveg hægt að setja líka smellur eða tölur. Svo er örugglega líka flott að tengja kragann í hring og gera þannig hringtrefil.

Takk fyrir mig 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Áhugaverðar greinar