Ég á mér draum

Siggas sewing wold

Já, ég á mér draum – átt þú þér ekki draum?

Ég á mér reyndar marga drauma en þetta er einfaldlega sá lang, langstærsti

Mig dreymir um sjálfbært Ísland í textíl- og fatanýtingu!

Hvað finnst þér um það? Ég sé fyrir mér að við getum snúið
okkur alfarið að hringrásarferlinu og hætt að senda úr landi allan þennan
textíl sem við nýtum okkur ekki í dag.

Vissir þú td. að Rauði Krossinn á Íslandi fær yfir 2000 tonn af fatnaði og textíl inn á borð til sín á ári?

Bara Rauði Krossinn!

Þá erum við ekki að tala um Hertex, ABC nytjamarkaði, Samhjálp, Konukot, Fjölskylduhjálp
Íslands, Mæðrastyrksnefndir…og öll önnur frábær samtök sem taka við fatnaði og textíl.

Já, Rauði Kross Íslands tekur við yfir 2000 tonnum af fatnaði og textíl á ári.

– og veistu hvað Ísland nýtir mikið af þessum yfir 2000 tonnum?

500 tonn…aðeins 500 tonn! Restin er seld til útlanda!

Gott og vel, Rauði Krossinn fær þarna tekjur af textíl sem sendur er úr landi

– hvað kostar það að senda gám eftir gám?

Ég veit það ekki en velti því vissulega fyrir mér núna þegar allir eru að tala um kolefnisspor
og umhverfisvernd.

Er möguleiki á því að Rauði Krossinn gæti fengið tekjur af
þessum textíl á annan hátt?

Hvað gerist þegar við getum ekki lengur leyft okkur að senda gám eftir gám

– fer þessi textíll þá í landfyllingu hérna heima?

En snúum okkur aftur að magninu af textíl sem við
Íslendingar viljum ekki nota…yfir 2000 tonn á ári – bara frá Rauða Krossinum!
Ætli einhver hafi tekið saman magnið í heild sinni, allt sem fer á alla hina
góðu staðina?

Mig dreymir um Ísland þar sem við getum tekið þessi yfir
2000 tonn og endurunnið nánast allt!

Jeps, það er minn draumur – og þegar árangurinn fer að sýna
sig, þá gerist það sjálfkrafa að við minnkum kaup á innfluttum fatnaði

– því við erum fullkomlega fær um að framleiða sjálf nánast allt sem þarf!

Ég sé fyrir mér…

Móttökustöðvar:

  • Fatnaður
  • Efnastrangar og afklippur
  • Hannyrðir

Flokkunarstöðvar:

  • Nýtilegur fatnaður; sendur til þurfandi, í neyðarhjálp, í fataskipti og verslanir fyrir notaðan fatnað
  • Ónýtan fatnað; sem er flokkaður eftir tegund, efnasamsetningu, lit o.fl.
  • Efni og hannyrðir; flokkað eftir nýtingarmöguleikum

Framleiðslustöðvar:

  • Ný vara hönnuð uppúr fatnaði og textíl sem er ónýtanlegur í því formi sem hann er
  • Ný efni búin til úr fatnaði og efnum úr hreinum náttúruefnum. Flíkurnar eru tættar niður, til að spinna og vefa ný efni
  • Hönnun og framleiðsla á fatnaði og textíl úr nýjum efnum, unnum úr niðurtættum flíkum

Verslanir:

  • Fataverslanir sem bjóða uppá fataskipti; fólk kemur með fatnað og velur sér annað í staðinn
  • Fataverslanir sem selja notaðan fatnað og fatnað sem er unninn uppúr gömlu
  • Fataverslanir sem selja fatnað úr nýjum, endurnýttum efnum
  • Efnaverslanir sem bjóða uppá efnaskipti og sölu á gömlum efnaafgöngum og nýtanlegum hannyrðum

Gæti svona starfsemi verið öll undir einu þaki? Ég veit ekki
hvort einhver myndi leggja því lið og ég veit ekki hvort það væri sniðugt
yfirhöfuð en ég trúi því að þetta sé mögulegt hér á Íslandi.

Eins og oft hefur verið sagt, þá getum við Íslendingar verið leiðandi afl í nánast hverju sem er.

Því ekki sjálfbærni í textíl?

Hvað myndi td gerast ef allar þessar fataverslanakeðjur sem
stunda offramleiðslu á ódýrum og misgóðum fatnaði myndu bara fara?

Hvað myndi gerast ef í stað þeirra kæmu íslenskar sérverslanir með íslenska framleiðslu og
endurnýtingu?

Hvað myndi gerast ef hver einasti byggðakjarni, hvert einasta félagsheimili – alls staðar á landinu – myndi setja upp stöðvar þar sem hægt væri að koma með fatnað og skipta honum út fyrir annan notaðan?

Hvað myndi gerast?

Stórt er spurt og ég hef ekki svörin en mig grunar að í raun gerist ekkert annað en að við hugsum okkur nær; minnkum þessa ofneyslu og förum að sinna Móður Jörð.

Breytum viðhorfi, hægjum aðeins á lífinu og leyfum okkur að líða betur.

Þetta er minn stóri draumur, ég veit ekki hvað þarf til að við sem þjóð náum að uppfylla hann en ég trúi því að þetta sé hægt.

Ég geri mér á sama tíma fulla grein fyrir því að við borðum ekki fílinn í einum bita – og þetta er ansi stór fíll – svona ferðalag fjallar um einn bita í einu.

Eftir því sem fjölgar í hópnum sem hugsar í sjálfbærni, þar sem hvert og eitt tekur lítil skref fyrir sig og sína

– þá getum við í alvöru breytt heiminum.

Byrjum á Íslandi því það er alltaf best að byrja að taka til í eigin garði.

Ef þú hefur áhuga á að skoða þetta betur, koma með mér í ferðalag til sjálfbærni í fatanýtingu og -stíl,

kíktu þá hér

Takk fyrir að lesa alla leið – ef þér líkar færslan máttu gjarnan deila henni áfram og smella á hjartað – takk <3 

Allt það besta til þín og þinna

Sigga

Áhugaverðar greinar