Facebook
Picture of Sigga

Sigga

Á persónulegum nótum

Mig langar að segja frá því hvernig ég fór út í saumaskap en til þess að geta sagt frá því, þarf ég að verða svolítið persónuleg. Ég hef nefnilega ekki verið saumandi frá barnsaldri. Ef ég væri spurð, þá myndi ég segja að ég eigi tvenns konar líf, íþróttalíf og ekki-íþróttalíf – og ekki-íþróttalífið hjálpaði mér að finna saumaskapinn.

Nú er ég búin að titla mig saumakonu í all nokkur ár – og all nokkur ár fyrir það saumaði ég, án þess að tilgreina mig sem slíka. Saumaskapurinn kemur upp úr eigin sjálfsbjargarviðleitni þegar heimurinn breyttist hjá mér.

Alveg frá því ég man eftir mér hef ég verið íþróttamanneskja, kölluð Sigga strákur, Sigga þrusa, Sigga skass og ég veit ekki hvað. Íþróttir voru mínar ær og kýr, miklu vinsælli en saumaskapur, þótt mamma væri búin að kenna mér öll undirstöðuatriðin. Ég vildi bara hreyfa mig, ég spilaði bæði handbolta og fótbolta langt fram eftir aldri – eiginlega bara allt sem snéri að hreyfingu, tók að mér þjálfun og lærði að verða íþróttakennari. Ég vildi vera í heimi íþrótta, brann fyrir hollum lifnaðarháttum, hreyfingu og mataræði. Ég fann fljótt að ég vildi kenna fullorðnum frekar en börnum og í 4 ár kenndi ég þolfimi í Danmörku. Þar byrjaði ég í einkaþjálfaranámi og hugði á framtíð í þeim geira, ásamt sálfræði. Vegurinn framundan var beinn og breiður…eða það hélt ég.

Örlögin voru hins vegar á öðru máli og eftir all nokkrar aðvaranir sem Hrúturinn ég hlustaði ekki á, sagði kroppurinn stopp og ég fór í veikindafrí frá allri vinnu vegna brjóskloss í baki. Ég átti ekkert afturkvæmt í íþróttirnar.

Á þessum sama tíma og ég fer í veikindafrí, erum við hjónin að kljást við þær fréttir að barneignir okkar á milli væru ekki mögulegar án aðkomu vísindanna. Við tók þriggja ára tímabil í hormónameðferðum og misheppnuðum frjóvgunartilraunum – sem að lokum leiddu af sér fæðingu tvíburanna okkar, Freyju Óskar og Arons Yngva.

Tvíburameðganga var nú kannski ekki alveg toppurinn fyrir brjósk í hrygg sem nýlega var gróið þannig að fljótlega eftir fæðingu barnanna, losnaði brjóskið aftur. Næstu þrjú árin fékk ég alls 6 sinnum brjósklos sem á endanum leiddi til að félagsráðgjafi á Reykjalundi hjálpaði mér að sækja um örorku og ég formlega datt út af vinnumarkaði haustið 2004.

Þetta var að sjálfsögðu svakalega erfiður tími, sjálfsmyndin mín brotnaði í mola við það missa „íþrótta“ Siggu og ég átti erfitt með að finna út hver ég væri. Það var óneitanlega gleði í öllum erfiðleikunum að glasafrjóvgun heppnaðist í þriðju tilraun og tvö fullkomin börn komu í heim okkar hjóna. Á meðgöngunni byrjaði ég að sauma, ég hreinlega gafst upp á að „hanga“ heima og horfa á sjónvarpið. Hrúturinn ég varð að gera eitthvað…ég bara varð og góð vinkona lánaði mér saumavélina sína.

Ég réðist ekkert á garðinn lægstan þegar ég hóf fyrsta saumaverkefnið mitt á fullorðinsárum

Næstu árin fóru auðvitað í ummönnun ungbarna auk þess að reyna að loka á ástandið á kroppnum mínum, við litla fjölskyldan fluttum aftur heim til Íslands og komum okkur fyrir. Eins og áður sagði, komst ég að á Reykjalundi v/krónískra verkja og þar fékk ég endanlega niðurstöðu að ég færi ekkert á vinnumarkað aftur – full örorka staðreynd.

Ég einbeitti mér að barnauppeldi og það var ekki fyrr en börnin byrjuðu í grunnskóla sem ég fór að fá urg í kroppinn – og sálina aðallega – og þessi þörf til að gera eitthvað fór vaxandi. Aftur kom til góð kona sem lánaði mér saumavél og áður en ég vissi var ég komin með tvær vélar, eina venjulega og eina overlock og vá hvað heimurinn minn breyttist. Hér má lesa um fyrsta „alvöru“ saumaverkefnið mitt, sem var ansi hreint skrautlegt og ég hugsa ennþá til þess hvað það hefði nú verið gaman að eiga mynd af mér í kjólnum góða.

En þarna var línan lögð, „íþrótta“ Sigga fór á hilluna með „gamla“ tímanum, góðum minningum og „það-sem-var“ og Sigga Saumakona lifnaði við, sjálfri mér til ólýsanlegrar ánægju.

Saumagetan…eða réttar sagt, saumaúthaldið hefur alltaf verið takmarkað og ég er búin að sættast við það. Getan var í upphafi 1-2klst á dag – stundum meira og stundum minna – og þannig er það enn þann dag í dag. Ég elska þessa stuttu stund sem ég hef í horninu mínu hvern dag og nýti hana til fullnustu, bæði til sköpunnar og sálgæslu.

Ég er svo þakklát alheiminum, mömmu, pabba og þeirra foreldrum fyrir jákvætt viðhorf, baráttuvilja, sjálfsbjargarviðleitni og útsjónarsemi að ég á varla til orð <3

En jæja, þetta var sagan af því hvernig hrúturinn Sigga fór að sauma, ef þú ert komin alla leið hingað í lestrinum, þakka ég kærlega fyrir og býð þér að skoða myndir af saumaverkefnum mínum gegnum árin <3

Takk fyrir lesturinn <3 Ef þér líkaði þá máttu gjarnan deila með þeim sem gætu haft áhuga <3

Knús, Sigga

Saumasaga Siggu

“…uhhh, mögulega geturðu breytt honum…” Uppúr árinu 2000 hófst mín vegferð í saumaskap. Það þróaðist þannig að ég varð óvinnufær á hinum almenna vinnumarkaði og

Lesa áfram »