Undanfarið er ég búin að vera að endurnýta gamlar slæður. Áslaug systir mín lét mig hafa poka fullan af slæðum frá systur okkar, mömmu og ömmusystur – allt konur sem komnar eru á aðrar slóðir en áttu það sameiginlegt að nota slæður. Slæðurnar voru notaðar á ýmsan hátt; til að halda rúllunum stöðugum í hárinu, til að skýla nýju hárgreiðslunni, til að leggja yfir axlir og skreyta axlarsvæðið eða um hálsinn til að verða ekki kalt.
Ég er búin að vera með þessar slæður núna í nokkra mánuði og hef hlakkað mikið til að byrja að hanna uppúr úr þeim kjóla. Kjólana hugðist ég selja áhugasömum eftir pöntun.
Það merkilega gerðist að vikan varð bara svolítið tilfinningarík – af hverju? Jú, vegna þess að í hvert skipti sem ég setti heitt straujárnið á slæðurnar, steig upp gamalkunnur ilmur – Chanel no. 5. Mamma og Elsa systir notuðu báðar Chanel no. 5 og ilmurinn hreinlega situr í öllum þráðum. Ég hef því verið í þeirra félagsskap alla vikuna og hef notið hverrar mínutu.
Þetta fékk mig auðvitað til að endurhugsa hugmynd mína um að selja slæðukjólana. Staðreyndin er sú að svona flík er ein sú besta minning sem þú getur eignast um ástvin – að mínu mati. Niðurstaðan er því sú að úr slæðunum í pokanum ætla ég að gera kjóla handa okkur systrum og öðrum kvenkyns afkomendum mömmu sem áhuga hafa.
Hins vegar þróaðist önnur góð hugmynd…að bjóða fólki sem er með slæður formæðra liggjandi heima, að koma með þær til mín og ég sauma úr þeim fallegan kjól. Mögulega legg ég svo í leiðangur og slæðukaup á nytjamörkuðum, til þess að nota á framhaldsnámskeiðinu mínu þar sem við hönnum nýjar flíkur uppúr gömlum.
Hér eru nokkrar myndir frá saumaferlinu 🙂
Hvernig er með þig, hefur þú saumað úr flíkum ástvina og fundið minningarnar streyma fram?
Takk fyrir lesturinn og ef þér líkaði máttu gjarnan deila <3
Allt það besta til þín og þinna
Sigga