Facebook
Picture of Sigga

Sigga

Sjálfbær fatastíll 2. hluti

Fyrsta hluta má lesa hér

Fötin í fataskápnum

Þegar við erum búin að fara í gegnum fataskápinn og skúffurnar, ætti vonandi að standa eftir einhver bunki af fötum sem við viljum eiga áfram. Þetta geta ýmist verið flíkur sem við notum nú þegar og líka flíkur sem við fundum í tiltektinni og viljum gjarnan taka fram aftur. Þá er mjög sniðugt að skoða bunkann með eftirfarandi í huga;

  • Hvað get ég notað núna, eins og það er?
  • Hvað get ég að gert varðandi stærðir?
  • Hvað get ég poppað upp með smá fifferíi?
  • Hverju vil ég breyta?

Það segir sig sjálft að þær flíkur sem passa og eru í notkun, fara beint inn í skápinn aftur. Næsta skref er þá að skoða hvað hægt er að nýta áfram; í sömu mynd, með smá breytingum eða stærri breytingum.

Segjum sem svo að kroppurinn hafi breyst frá því við keyptum flotta, flotta kjólinn – synd að við náðum bara að nota hann tvisvar sinnum. Þennan kjól (eða hvaða flík sem er) er hægt að laga stærðina á, það er bæði hægt að þrengja og víkka – og meira að segja stytta og síkka líka 😉

Breytingar á stærð

Þegar við erum að breyta stærðum er gott að hafa opinn huga gagnvart ferlinu sjálfu. Hvort sem þú ert að stækka flík eða minnka, er mikilvægt að halda hlutföllunum á flíkinni og dreifa sentimetrunum niður á fleiri en einn saum. Síðan er mikilvægt að taka eitt skref í einu og vera dugleg að máta og sjá hvernig þetta kemur út allt saman.

Þrenging

Ef það þarf að minnka flíkina, er mikilvægt að mæla hvað þarf að minnka hana mikið – og dreifa svo minnkuninni niður á þá sauma sem eru í boði (td. bak og hliðar). Stundum er nóg að taka bara aðeins inn saumana en ef minnkunnin er meiri en 6 cm í heildina, getur þurft að bæta við föllum, teygju eða stroffi. Aðalatriðið hér er að halda í hlutföllin á flíkinni – og taka eitt skref í einu, þræða þrenginuna og máta áður en farið er í að klippa 🙂

Víkkun

Þegar við viljum víkka flíkina, þá eru nú ýmsir möguleikar í boði, allt eftir því hve mikið þarf að víkka. Fyrsta sem ég skoða eru saumförin, er nóg til að taka saumana út? Ef ekki, þá eru við að skoða að bæta efni inn í og víkka flíkina þannig. Það er hægt að gera á ýmsan hátt, hvort sem notað er svipað efni eða eitthvað allt annað. Kannski erum við með síðan kjól sem má vera styttri, þá er hægt að nota sama efni og bæta því inn í hliðarnar – þessa aðferð má sjá í þessu myndbandi.

Aðrar aðferðir eru td. að setja inn renninga til að víkka bæði ermar og skálmar. Þá opna ég hliðarsauma og bæti efni inn á milli.

Aðrar breytingar

Þegar kemur að breytingum á fötum, þá eru í raun engin takmörk á hvað hægt er að gera, eina…eða tvennt…eða þrennt sem þarf er hugmyndaflug, þor til að klippa og kjarkur til að prófa sig áfram. Að mínu mati er ekki hægt að skemma breytingar á flík, stundum fara hlutirnir ekki eins og upphaflega var planað en með því að hafa opinn huga, finnur maður alltaf nýja leið.

Það er endalaust hægt að lyfta flík upp og gera hana að einhverju betra eða nýtilegra:

  • Breyta hálsmáli; taka/bæta við kraga, setja v-hálsmál/fylla upp í v-hálsmál, víkka/þrengja…
  • Breyta ermum; taka af/setja á, skipta um efni, víkka/þrengja/síkka/stytta, setja stroff/teygju/klauf…
  • Síkka eða stytta flík; taka af/bæta við, klippa sundur og setja annað efni…
  • Skreyta; handsaum, blúndur, rennilás, vasar, perlur/pallíettur, setja bætur/myndir/merki

Eins og ég segi, möguleikarnir eru endalausir, allt sem þarf er opinn hugur – hér má sjá tvö myndbönd, það eru fleiri til að skoða á Youtube rásinni minni – ef þér líkar, máttu gjarnan smella þumal eða smella þér í ókeypis áskrift að rásinni 🙂

Takk fyrir að lesa – ef þér líkar máttu gjarna “fylgja” mér – og deila með þeim sem gætu haft gott og gaman af <3

Saumasaga Siggu

“…uhhh, mögulega geturðu breytt honum…” Uppúr árinu 2000 hófst mín vegferð í saumaskap. Það þróaðist þannig að ég varð óvinnufær á hinum almenna vinnumarkaði og

Lesa áfram »