Ég held að þegar við förum í gegnum fataskápinn, endum við oft með einhverja bunka…misstóra…af flíkum sem við viljum ekki eiga lengur. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því; þær eru fallegar en passa ekki lengur og færu betur á annarri manneskju, við erum orðin leið á þeim og dettur bara ekkert í hug til að poppa þær upp. Stundum er það líka þannig að okkur langar ekkert að breyta eða poppa upp flík því hún er flott eins og hún er – bara ekki fyrir okkur.
Hvað gerum við þá? Fyrsta hugsun er svo oft að skutla flíkunum í poka og fara með þær í Rauða Kross gáminn í Sorpu. Staðreyndin er sú að það er svoooo margt annað sem þú getur gert til að koma flíkunum þínum áfram í hringrásarferlinu. Rauðin Krossinn og önnur góðgerðarfélög sem taka á móti fatagjöfum, eru hreinlega að drukna, magnið af fatnaði og textíl er svo mikið. Margt af fötunum er sent erlendis og þar sem efnasamsetningar í flíkunum eru þannig að ekki er hægt að endurnýta, þá fara þessar flíkur á haugana – fatafjöllinn hér og þar um heiminn. Þess vegna skiptir svo miklu máli að við nýtum þessi föt sem við höfum keypt – og komum þeim svo beint í hendur annarra 🙂
Áttu fjölskyldumeðlimi sem gætu notað fötin þín? Ég veit að í minni fjölskyldu horfa yngri meðlimir oft aðdáunnaraugum á sér eldri frænkur og frændur og eitt það skemmtilegasta er að þiggja frá þeim flíkur.
Áttu nágranna sem gætu þegið fatagjafir? Áttu vini sem gætu þegið fatagjafir?
Ef þú ert á Facebook þá eru margir hópar þar sem hægt er að gefa fötin beint til fólks sem þiggur með þökkum.
Síðan eru ýmis samtök sem þiggja gjafir sem fara beint til flóttamanna, heimilislausra og þeirra sem eiga erfitt; ADRA Ísland, Konukot (heimilislausar konur), Njálsgata – Geðhjálp (heimilislausir karlar), Kvennathvarfið – allt eru þetta úrræði sem gætu þegið fatagjafir, um að gera að hafa samband og spyrja. Það eru án efa fleiri úrræði sem hafa þörf 🙂
Í mínum huga skiptir miklu máli að gefa fötin áfram, beint til næsta notanda, sama hvernig þú gerir það. Það minnkar álagið á þessi stóru góðgerðarsamtök (Rauðs Krossinn, ABC nytjamarkaður, Hertex og fleiri)
Þetta finnst mér alger snilld og ég hef séð aukningu í þessari aðferð við að koma fötunum áfram í hringrásarferlinu. Hér og þar um bæinn eru settir upp skiptimarkaðir þar sem þú getur farið með fötin þín, sett þau á slánna og náð þér í eitthvað nýtt/notað. Þessir skiptimarkaðir hafa verið auglýstir á Facebook og ég veit að Kvenfélagasamband Íslands hefur verið með svona skiptmarkað reglulega. Hann datt niður í covid en var haldinn á ný síðasta október og það stendur til að hafa aftur núna á vorönn.
Fatapartý hef ég líka heyrt um, þar sem vinir bjóða vinum í partý og allir koma með föt sem þeir eru tilbúnir að gefa áfram. Það er nú hrikalega skemmtilegt að skella sér í partý og koma heim með nýja flík 🙂
Að lokum er það svo salan á flíkunum. Þú getur sett upp markað, auglýst og selt. Það er líka hægt að mynda hóp fólks sem vill selja og hafa markaðinn stærri. Eina sem þú þarf er staður til að setja markaðinn upp. Þetta höfum við séð; Dívumarkaður var einu sinni þar sem söngdívur voru að selja kjóla og annan fatnað. Þar keypti ég td. tvo virkilega flotta kjóla af Heru Björk. Síðan má nefna Kolaportið þar sem hægt er að leigja bás og selja þar.
Ef þú nennir ekki að standa í að selja þá er alltaf hægt að leigja bás og láta aðra um að selja fyrir þig. Í dag eru þó nokkrir möguleikar þar sem þú getur sett upp fötin þín og leigt básinn í ákveðin tíma – og það bætist reglulega fleiri við sem bjóða uppá þessa þjónustu. Mér finnst það reyndar virkilega góð leið ef þig langar að fá eitthvað fyrir fötin þín og ég mæli með því að þú hreinlega sláir inn í leitarvél til að finna alla möguleikana – ég er með nokkra í huga; Hringekjan, Elvira 101, Attik, Gullin mín…svo eitthvað sé nefnt.
Hérna hef ég stiklað á stóru varðandi þá möguleika sem við höfum til að nýta fatnað og textíl lengur – ef við erum ekki þessi kreatífa týpa sem breytir og saumar nýtt úr gömlu 😉 Þegar kemur að fatnaði og textíl þá er mikilvægt að koma honum á rétta staði. Ef við erum með algerlega ónýt flík í höndunum, eða textíl sem hefur skemmst, þá setjum við það í glæran poka, skrifum á pokann “tætingur” og setjum hann í gáminn hjá Rauða Krossinum – fatnað og textíl á ekki að setja í heimilisruslið!
Minn draumur er sá að í hverju hverfi verið komið upp aðstöðu fyrir skiptimarkað. Nú þegar eru komnir upp skápar fyrir mat og líka bækur – því ekki fatnað? Minn draumur er að notað verði tískan – skiptimarkaðir verði verslunarmáti þeirra sem hafa áhrif og þannig, lítið skref í einu, breytum við neysluformi samfélagsins.
Takk fyrir lesturinn, ef þér líkaði máttu smella þumli – og gjarnan fylgja mér á blogginu 🙂
Allt það besta til þín og þinna – í næsta bloggi fjalla ég um kaup á flíkum; hvað er gott að hafa í huga?
Sigga <3