Facebook
Picture of Sigga

Sigga

Sjálfbær fatastíll – 4. hluti

Jæja, núna erum við búin að vera rosalega dugleg; taka til í fataskápnum, gefa, breyta og bæta og allt klárt. Hvernig er það samt, er þá bara bannað að kaupa sér föt? Uh, nauts auðvitað ekki. Það er samt ekkert vitlaust að hafa nokkra hluti á bakvið eyrað þegar farið er í fatakaup 🙂

Flíkur og textíll

Þegar talað er um sjálfbæran fatastíl, er talað um að þegar þú kaupir þér flík, þarf útgangspunkturinn að vera sá að þú getir notað flíkina minnst 30 sinnum – og síðan endurunnið flíkina á einhvern hátt eða komið henni áfram í hringrásarferli endurnýtingar.

Bara þetta eitt kallar á að við þurfum að skoða gæði flíkur sem við ætlum að kaupa og það verður að segjast að gæði og verð hafa tilhneigingu til tengjast í þessum efnum – ég vil þó nefna líka að verð er ekki alltaf það sama og gæði.   

Hvort sem þú ert að kaupa nýja flík eða notaða er gott að kanna hvaða efni er notað í flíkina. Þetta á kannski sérstaklega við um kaup á nýrri flík því samseting tráða í efninu skiptir öllu máli um það, hvort hægt er að endurnýta textílinn eða ekki. 

Það er nefnilega alveg „no, no“ að blanda saman þráðum úr náttúrefnum og gerfiefnum – vissir þú það? 

Um leið og náttúrlegum þráðum, s.s. bómull, silki, viscose, ull og hör er blandað með gerfiþráðum, s.s. polyester og elastaine – verður textíllinn óendurnýtanlegur. 

Það verður því miður að segjast eins og er, að fjöldaframleiðslumarkaðurinn í dag er nánast einungis með blandaðan textíl í fatnaði.  

Þess vegna er svo mikilvægt að flíkurnar sem við eigum, flíkur sem eru saumaðar úr blönduðum þráðum (náttúru og gerfi), séu nýttar eins lengi og við mögulega getum; breytum þeim og bætum – því þetta eru mögulega flíkurnar sem enda sem landffylling einhvers staðar úti í heimi. Þeim mun ódýrari sem flíkin er í kaupum, þeim mun meiri líkur á svona endalokum. Gæðameiri flíkur hins vegar geta gengið milli manna því það „góða“ við gerfiefnin er að þau endast endalaust. 

Þegar við kaupum nýjar flíkur, skoðum miðann, hvaða efni eru í flíkinni?  Flík úr 100% polyester er td. ekki slæm kaup, 100% polyester er vel hægt að endurnýta. Flíkur úr polyester halda sér almennt mjög vel, krumpast ekki og fara vel í þvotti. Þar sem efnið heldur sér nánast endalaust, er líka gott að nýta efnið áfram þegar flíkin sem slík hefur lokið sínu hlutverki.

Aðalatriðið er að forðast að kaupa nýjar flíkur sem eru með blandaða náttúrulega og gerfiþræði í textílnum.

Það má blanda náttúrulegum þráðum saman í efnastranga, það er hægt að endurnýta ull/bómull eða bómull/silki því bæði koma beint frá Móður Jörð 

Þegar ég er að tala um efnablöndur í flík þá er ég að tala um samsetningu þráðanna í efninu. Það má alveg blanda saman mismunandi efnum í eina flík, ég hika td. ekki við að blanda saman efnum, í mínum Karakterum úir og grúir saman af ólíkum efnum. Karakterana er hins vegar hægt að taka í sundur og þá stendur eftir hver efnisbútur fyrir sig. 

Hvað gerir maður þá?

Hvað er þá best að gera þegar maður vill kaupa sér nýja flík? Eins og heimurinn er í dag, fjöldaframleiðslan og samfélögin hér og þar á vesturlöndum, getur þessi spurning verið ansi stór. Við hér á Íslandi erum hins vegar heppin með það að hér má finna einyrkja. Fatahönnuðir sem framleiða allt sitt hérna heima – eða hafa beinan aðgang að sinni framleiðslu erlendis, setjandi réttláta standarda fyrir starfsfólkið. Við þurfum heldur ekki að leita neitt sérstaklega langt þegar við förum erlendis, ef við viljum finna einyrkja þar. Það eina sem þarf er að sleppa því að fara í risastóru verslunarmiðstöðvarnar og leita þar að “góðum dílum”.

Hérna á Íslandi erum við líka það heppin að það er hægt að leigja sér föt! Hver þarf að kaupa sér fjöldaframleidda flík þegar hægt er að leigja? Ég segi það ekki, það var lengi verið hægt að leigja sér brúðarkjól og karlar hafa lengi getað leigt sér smoking og kjólföt. Nú er hins vegar komin leiga fyrir alls konar fatnað. Mér finnst þetta bara alger snilld og set bara hér inn slóðina, https://spjara.is/

Nú veit ég ekki hvort það eru komnar fleiri svipaðar leigur – húrra fyrir því ef svo er 🙂

Svo er auðvitað ekki hægt að benda nógu oft á hagkvæmni þess að kaupa fatnað í “Second-hand” verslunum og á fatamörkuðum. Í raun er það besta ráðið sem hægt er að gefa þeim sem vilja stefna á sjálfbæran fatastíl, bæði vegna þess að þá ertu ekki að kaupa nýja flík og fatamarkaðir og verslanir með notaðan fatnað eru oft búin að flokka í burtu flíkur úr lélegri gæðum. Þetta á þó ekki við slár þar sem hver og einn er að selja sitt 🙂

Þetta er spurning um viðhorf, að mínu mati verðum við að breyta þessum hugsunarhætti að vilja alltaf meira, fá góðan díl og kaupa þrjár flíkur í stað einnar – ef við þurfum eina flík, þá þurfum við ekki þrjár, er það? Mér finnst margir svo uppteknir af því að fá eitthvað á góðu verði – hvað er gott verð? Hvað með góð gæði? Hvað með góðan aðbúnað starfsfólks? Hvað með góð snið? Hvað með góð efni?

Sjálfbær fatastíll kallar á það að við breytum viðhorfinu. Sjálfbær fatastíll kallar á að við nýtum betur það sem við eigum, að við kaupum hrein og góð gæði þegar við kaupum, að við kaupum sjaldnar og að við vitum hvað við erum að kaupa.

Erum við tilbúin í ferðalag til sjálfbærni?

Að lokum langar mig að bæta hér inn, hvernig við getum sinnt fötunum okkar, það er nefnilega ýmislegt hægt að gera til að flíkin endist lengur – sérstaklega þegar kemur að þvotti:

  • þvo sjaldnar, þvottavélin losar um plastagnir sem eru í flíkinni, agnir sem enda í sjónum og hafa áhrif á lífríkið – vélin slítur líka flíkinni hraðar 
  • leggja í bleyti, það getur verið nóg að leggja flíkina í bleyti til að “hressa” hana við
  • viðra, mörg efni vilja þetta helst og með því að viðra flíkina td. í froststillu, nærðu oft úr lykt sem ekki á að vera. Hvítt verður hvítara í sólskini
  • vinna beint á blettum, í stað þess að þvo alla flíkina getur verið nóg að nudda bletti með blautum klút
  • sleppa þurrkaranum – hann slítur flíkinni meira út en snúran  

Takk fyrir lesturinn, ef þér líkaði máttu gjarnan smella þumal á færsluna – og ekki er verra ef þú vilt fylgja mér 🙂

Allt það besta til þín og þinna <3

Sigga

Saumasaga Siggu

“…uhhh, mögulega geturðu breytt honum…” Uppúr árinu 2000 hófst mín vegferð í saumaskap. Það þróaðist þannig að ég varð óvinnufær á hinum almenna vinnumarkaði og

Lesa áfram »