Um daginn datt mér í hug að sauma mér buxur. Ég er búin að vera á leiðinni að finna mér eitthvað gott snið sem ég gæti notað aftur og aftur – svona hefðbundið buxnasnið, ekki leggings. Það er orðið ansi langt síðan ég hafði sauma mér flík eftir sniði – mér finnst jú skemmtilegast að breyta notuðum fötum.
Ég hafði fengið gefins fallegt hör efni, eldrautt og mjúkt og ákvað að nota það í að prófa snið sem ég hafði fundið. Ég tók upp sniðið, byrjaði að sníða og sauma og allt þetta skemmtilega – og uppgötvaði hvað ég hef gott af því að fara tilbaka í grunninn af og til.
Staðreyndin er sú, að góð þekking á grunnatriðum í saumaskap er ansi hreint mikilvæg; hvernig efnið leggst, þráðátt og hvað gerist þegar hún er ekki rétt, röð samsetningar á flíkinni…Öll þessi atriði skipta að mínu mati, heilmiklu máli. Þegar við höfum tileinkað okkur þessi algengu grunnatriði, þá gengur okkur betur að átta okkur á eiginleikum fatnaðar sem við viljum breyta.
Við áttum okkur betur á hvernig saumarnir liggja, hvernig sniðstykkin eru formuð. Við sjáum hvað er vel saumað og hvað ekki – og síðan mitt uppáhald, hvernig við getum nýtt okkur eiginleika flíkur til að skapa eitthvað nýtt og skemmtilegt úr henni.
Að mínu mati er maður aldrei of klár til að rifja upp eða læra eitthvað nýtt, ég vissulega fann það sjálf að ég mætti alveg vera duglegri í að sauma einstöku sinnum flík alveg frá grunni – og rifja þessi grunnatriði upp.
Ég hvet þig til að kynna þér sníðun/rifja upp takta – ef ekki er fyrir annað en að skemmta sér við eitthvað sem maður kann ekki eða hefur ekki gert lengi. Það er auðvelt að nálgast fatasnið, mörg bókasöfn lána saumablöð (td. Bókasafn Kópavogs) og þar er hægt að finna snið fyrir alla getuhópa. Burdablöðin td. eru með kerfi varðandi erfiðleikastig saumaskapar, allt frá 1 punkti (auðveldast) upp í 4 punkta. Síðan hefur þú heilan mánuð til að leika þér með blaðið heima hjá þér.
Stutt og snaggaraleg færsla í þetta skiptið, ef þér líkaði, máttu deila henni með þeim sem gætu haft gaman af.
Knús, Sigga