Sjálfbærni er orð sem ég hef velt svolítið fyrir mér. Í mörg ár hef ég stefnt á að vera sjálfbær í fatanotkun en mér fannst ég ekki ná þeim status…þangað til ég fattaði að ég var að misskilja skilgreininguna á orðinu.
Hugtakið sjálfbærni gengur í grunninn út á að allir jarðbúar, sama hvar og hvenær, geti mætt sínum þörfum án þess að ganga svo nærri auðlindum og lífríki jarðarinnar, að það dragi úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta sínum. Hugtakið sjálfbærni nær því yfir ansi hreint marga fleti manneskjunnar – ég held við getum tekið dýrin út úr samhenginu því þau lifa samkvæmt hringrás lífsins hvort sem er. Svo langar mig ekkert að tala um sjálfbærni dýra því þau t.d. ganga ekki í fötum 😉
Þegar kemur að textílframleiðslu og magnframleiðslu á fatnaði þá getum við alveg sagt okkur sjálf að tískuheimurinn starfar ekki samkvæmt hugsjónum sjálfbærni, heldur græðgi. Ég fór meira að segja þangað að hafa áyhyggjur af því hvort ég gæti talað um sjálfa mig sem sjálfbæra manneskju þegar kemur að textíl-og fatanýtingu – ég sem kaupi einstaklega sjaldan föt. En jú, ég fór þangað – svo fór ég að fylgjast með Fashion Revolution hreyfingunni sem ég skrifaði um í síðasta mánudagspósti og þá fór ég að skilja þetta allt saman betur – skilgreiningar og eigin neyslu.
Sjálfbærni gengur nefnilega ekki út að að kaupa aldrei neitt nýtt – já ég veit, ég hefði svo sem alveg getað sagt mér það…en gerði það ekki. Mér fannst ég einhvern veginn ekki getað kallað mig sjálfbæra því mér þykir gaman að kaupa ný og falleg gæðaefni og hanna og sauma uppúr þeim.
Sjálfbærni þegar kemur að textíl- og fataframleiðslu, gengur út á að framleiðendur skapi aðstæður við framleiðsluna þannig að hún fari ekki illa með jörðina, að fólkið sem kemur að framleiðslunni fái mannsæmandi laun og vinnuaðstæður.
Fyrir okkur sem neytendur, þýðir sjálfbærni að sinna okkar eigin fatnaði og textíl, nýta hann eins lengi og mögulegt er – og koma honum síðan áfram í hringrásarferli; ýmist með því að breyta og bæta eða koma honum í aðrar hendur sem nota hann áfram.
Þannig að… svo ég taki þetta nú saman, þegar við kaupum ný klæði, spyrjum okkur:
– hvaðan koma þau (innan Evrópu eða utan)
– hverjar eru aðstæður verkafólks (laun, umhverfi, vinnutími…)
– úr hvaða efnum eru þau (er framleiðsluferlið náttúruvænt?)
Sjálfbærni í fatastíl gerir það að verkum að við kaupum sjaldnar, það segir sig sjálft að fatnaðurinn sem við kaupum, kostar meira en hraðtískufatnaður – þú ert að borga fyrir réttlæti, mannsæmd og gæði.
Einhvers staðar sagði einhver að við kaup á flík ætti maður að miða við að geta notað flíkina alla vega 30 sinnum – mér finnst það alveg raunhæft viðmið.
Hinn póllinn er svo að við eigum mörg slatta af fötum sem hafa verið framleidd við neikvæðar aðstæður, umhverfis- og mannúðarlega séð – hvað gerum við við þau klæði…hendum við þeim? Nei, alls ekki. Þessi klæði getum við alveg nýtt – gerfiefnin eyðast jú varla í náttúrunni þannig að væntanlega er hægt að margnýta gerfiefni, svo fremi sem gæðin eru þokkaleg.
Þetta er allt spurning um okkar eigin huga; er hann opinn og hugmyndaríkur, sjáum við möguleikana í flíkinni sem hefur lokið sínu hlutverki í því formi sem hún er? Er ekki hægt að breyta/bæta/skreyta flíkina svo hún nýtist áfram?
Skemmtilegar spurningar, finnst þér ekki?
Ef þú hefur einhverjar spurningar varðandi nýtingu textíls og klæða, ekki hika við að senda mér línu – eins ef þú hefur hug á að skoða námskeiðin mín sem ég verð með í vetur, láttu mig vita og ég sendi þér upplýsingar. Þú getur líka nálgast upplýsingar hér á síðunni
Takk fyrir lesturinn, ef þér líkaði máttu gjarnan deila færslunni
Allt það besta til þín og þinna <3
Sigga