Komið sæl og blessuð og velkomin í Saumaheiminn minn. Ég heiti Sigríður Tryggvadóttir, er yfirleitt kölluð Sigga og bý á fallega Kársnesinu í Kópavogi. Ég er saumakona, hef saumað síðan ég man eftir mér, daglega í fleiri, fleiri ár en síðustu misserin hef ég sérhæft mig í endurnýtingu gamalla efna og elska að breyta gömlum flíkum og gera eitthvað nýtt og einstakt úr þeim.

Árið 2022 byrjaði ég með námskeið í fatabreytingum og ég hreinlega elska að sýna fólki hversu einfalt það getur verið að taka lítið notaða flík og breyta henni í uppáhalds flíkina.

Þetta finnst mér mjög mikilvægt í dag þar sem umhverfismeðvitund og “fast fashion” fara illa saman. Ég trúi því að þegar við sinnum fötunum okkar, saumum, bætum og breytum, verðum við meðvitaðri um tímann og vinnuna sem fer í að setja saman flík – og minnkum í framhaldinu kaup á ódýrum klæðum úr lélegum efnum. Þannig hjálpum við Móður Jörð að heila sig af mengunnaráhrifum textíl- og fataframleiðslu.

Ég er alin upp við það viðhorf að fara vel með hlutina svo þeir endist lengur; að laga það sem hægt er og breyta svo hægt sé að nota lengur. Báðir foreldrar mínir voru handverksfólk, ég er alin upp innan um mikla handverksiðn og lærði snemma mikilvægi vandvirkni, þolinmæði, endurnýtingar og góðra handverka.

Ég er kennaramenntuð í grunninn og hvað varðar saumaskapinn þá er ég að mestu leyti sjálflærð en mamma er mín fyrirmynd í saumaskap, sem og flestu öðru. Hún vann í mörg ár í hlutastarfi sem saumakona og kenndi mér mikilvægi þess að vanda til verka….

“…ef þú vandar þig við undirbúningsvinnunna, verður framhaldið auðveldara og flíkin ber það með sér að saumaskapurinn og frágangurinn er vandvirkur.”  

 

Það sem mér finnst skemmtilegt við fatabreytingar og endurnýtingu er að standa með tilbúna flík, hleypa hugmyndafluginu inn, opna hugann og skapa eitthvað nýtt úr gömlu. Sjálfri finnst mér gaman að ganga um í einstökum flíkum þannig að auðvitað finnst mér einstaklega skemmtilegt þegar fólk þorir að standa út úr hjörðinni í heimasaumuðum flíkum sem enginn annar á. Svo er það alveg einstök tilfinning að vera sjálfstæður í fatastíl, að geta búið til sínar eigin flíkur, það er engu líkt 🙂

Í dag sauma ég nánast allar mínar flíkur sjálf og breyti svo og endurhanna þegar flíkurnar henta mér ekki lengur. Svo hanna ég mín eigin snið og flíkur til sölu, allt úr efnaafgöngum og vintage gæðaefnum – merki þau með fiðrildi. Fiðrildi hafa verið mitt uppáhald í mörg ár, það er eitthvað við þessa endurnýjun sem heillar mig.

Þetta erum við

Gildi Saumaheims Siggu

Hugrekki & nýsköpun

Hugrekki til breytinga er að þora að horfast í augu við breytta tíma og stíga þau skref sem þarf. Það kallar á breytt viðhorf og nýjan hugsunarhátt.

Það er hugrekki að viðurkenna skort á þekkingu, að læra nýtt. Án hugrekkis er engin nýsköpun og án nýsköpunar verða engar breytingar.

Heiðarleiki & traust

Heiðarleiki felur í að vera hrár, segja satt og standa við loforð. Heiðarleiki býður uppá traust, sem er grundvöllurinn fyrir samkennd, samvinnu og vinskap

– viðhorf sem eru nauðsynleg fyrir samfélagið, fyrirtæki og einstaklinga. 

Gleði & lærdómur

Gleði og opinn hugur fyrir lífinu er að okkar mati, grundvöllurinn fyrir góðu lífi. Að vera opinn fyrir því að læra nýja hluti, vera hrár og ófullkominn í sinni fullkomnu mynd.

Gleðin við að læra nýja hluti eða tileinka sér breytt viðhorf, getur opnað dyr fyrir ótal möguleikum og ríkara lífi.

Réttlæti

Réttlæti manna á milli og gagnvart Móður Jörð tengist samkennd, trausti og ábyrgð djúpum böndum. Þegar við vinnum saman, tökum ábyrgð á eigin hegðun og virðum umhverfið, byggjum við upp réttlæti. 

Sjálfbærni

Móðir Jörð er grundvöllur lífs okkar, og því ber okkur að vernda hana og taka tillit til náttúrunnar. Þannig getum við skapað heilbrigðara og réttlátara samfélag fyrir komandi kynslóðir

Samvinna

Enginn getur allt einn og með því að bjóða fram og þiggja aðstoð, líður okkur vel í hjartanu og allt gengur betur

– þannig smyrjum við hjól breytinga í átt að hreinni heimi og gróskumeiri Móður Jörð.