Saumaheimur Siggu býður upp á einstakar flíkur sem allar eiga sinn uppruna í áður elskuðum fatnaði og textíl. Hver einasta flík kemur í einu eintaki og henta öllum Karakterum sem þora.
Þegar þinn Karakter hefur lokið sínu lífi, getur þú komið með hann til mín og ég kem honum áfram í hringrásarkerfinu. Það getur verið í samráði við þig, td. ef þú vilt nýja flík úr efniviðnum – eða þú skilar honum og ég finn efniviðnum ný verkefni.
Efniviðurinn sem ég nota í alla mína Karaktera, hvaða flík sem það er, kemur héðan og þaðan. Uppáhaldið mitt eru efnin sem ég keypti á brunasölu Hornsins, en það var verslun sem lokaði 1990. Mér þykir óskaplega vænt um textíll sem mér hefur verið gefinn, oft frá dánarbúum – og síðast en ekki síst, textílúrgangur sem ég keypti frá Rauða Krossinum. Mér hefur fundist gott að geta sent Guðbjörgu í Fataflokkuninni línu og fengið að kaupa úrganginn hjá þeim – sem sagt fatnað sem ekki er hægt að koma áfram í hringrásarkerfinu í því formi sem hann er. Þá klippi ég frá það sem er ónýtt af flíkinni og skapa eitthvað nýtt úr henni.
Nú hefur Sorpa tekið við fataflokkuninni, það kemur í ljós seinna hvort ég kaupi þar því ég er með troðfullt Saumahorn af dásamlegum efnivið – og þarf ekkert meira í bili.