Ágústmánuður er búinn að vera ansi viðburðaríkur hjá mér, kannski sérstaklega því ég er búin að vera að undirbúa ný námskeið sem byrja núna í upphafi september. Það er svo skondið að þótt ég hafi sett námskeiðin upp í maí og í raun verið tilbúin með þau nokkurn veginn alveg, þá er alltaf eitthvað sem bætist við.
Ég er búin að láta mig dreyma um að halda námskeið í nokkuð langan tíma núna, örugglega 5-7 ár, en hvorki haft kjark né líkamlega getu til að koma þeim á koppinn. Þess vegna er ég svo ofurglöð að vera komin á þann stað að geta byrjað þessi námskeið.
Hérna að ofan finnur þú link þar sem þú getur þú skoðað námskeiðin mín, það er ennþá möguleiki á að skrá sig 🙂
Það eru ekki bara námskeiðin sem hafa tekið upp ágústmánuð hjá mér, ég hef verið að sauma auðvitað – ég sleppi varla degi úr í Saumahorninu mínu 🙂 Ég hef bæði verið í sérpöntunum á kjólum, fatabreytingum og svo hattasaumi – já ég skellti mér loksins í að sauma hatt og mér fannst það svo gaman að ég saumaði mér annan.





Það sem mér fannst svo skemmtilegt með hattasauminn er, að það er nóg að hafa ummálið á höfðinu og vita hvernig þú býrð til hring á blað útfrá ummálinu. Síðan er hægt að leika sér fram og tilbaka með snið og útlit. Eftir að hafa sniðið og saumað mér svona hefðbundinn „bölle bob“ hatt úr gömlu pilsi, þá sneið ég og saumaði ég þunnan sólhatt með stóru barði sem ég stífaði með plastþræði. Virkilega gaman að prófa sig svona áfram í nýtingu á efnum og gömlum flíkum
Svo langar mig nú að nefna eiginlega það skemmtilegasta sem gerðist hjá mér, mér var boðið að koma í viðtal hjá þeim Guðrúnu Gunnars og Gunnari Hanssyni, í Mannlega þættinum á Rás 1. Þar vildu þau heyra um fatabreytingar, endurnýtingu á fatnaði og svo auðvitað hópinn minn á Facebook „Endurnýting gegnum saumaskap“.
Hérna má hlusta á viðtalið
sigridur-tryggvadottir-endurnyting-a-fotum
Áskorun
Reglulega heyrum við fréttir af fatafjöllunum sem við vesturlandabúar “gefum” í góðgerðargáma – fatnaður sem er óendurnýtanlegur og endar í landfyllingum eða eyðimörkum minna efnaðri landa. Við heyrum meira að segja af verslunum sem “henda” óseldum fatnaði sem “kominn er úr tísku” þann mánuðinn. Mér finnst virkilega mikilvægt að við séum meðvituð og að við kennum okkar börnum að vera það líka – að við leggjum okkur fram við að vinna gegn þessu viðhorfi að alltaf megi bara kaupa nýtt.
Ég hef fylgst með Fashion Revolution samtökunum um nokkurt skeið. Þessi samtök, sem trúlega má kalla hreyfing, urðu til í kjölfarið á hörmungunum sem urðu í Rana Plaza, 2012 minnir mig, þar sem yfir 1000 textílverkafólk lét lífið þegar byggingin sem þau unnu í, hrundi. Öll önnur starfsemi hafði yfirgefið húsið vegna hættu á hruni – eigandi verksmiðjunnar neitaði að loka verksmiðjunni.
Fashion Revolution best fyrir réttlæti til allra er koma að textíl-og fataframleiðslu; mengunnarminni textílframleiðsla, réttlát laun, réttlát vinnuaðstaða og þar fram eftir götunum. Samtökin standa á bak við ýmsar áskoranir og „hashtags“, svo sem #whomadeyourclothes , #imadeyourfabric #imadeyourclothes #whomademyclothes #whomademyfabric
Þeir eru að setja í gang áskorun núna í september sem þeir kalla #secondhandseptember sem ég hef gefið mér það leyfi að yfirfæra á okkar ylhíra sem #sjálfbærseptember – Ég vil halda mig við íslensku og sjálfbær september hljómar bara vel finnst mér.
Hérna er linkur á heimasíðu Fashion Revolution https://www.fashionrevolution.org
Hér geturðu lesið um #secondhandseptember
#sjálfbærseptember
Hvað þýðir sjálfbærni í fatnaði? Jú í raun þýðir það að þú nýtir það sem þú átt, breytir og bætir það sem þarf til að flíkin endist eins lengi og hægt er. Þegar flíkin hefur lokið sínu hlutverki í sinni upprunalegu mynd, gæti verið hægt að nýta hluta efnisins áfram, hvort sem er, sem hluta af annarri flík eða sem eitthvað allt annað. Þeir sem eru sjálfbærir í fatanaði kaupa sjaldan nýjar flíkur heldur ýmist skiptast á flíkum við aðra eða kaupa notað. Útgangspunkturinn ef keypt er ný flík er að framleiðsla á efni og flík hefur farið fram með umhverfisvænum og réttlátum hætti. Miða má við að flíkin verði notuð minnst 30 sinnum.
Það er nú kannski ekki meiningin að fara á kaf í fatasjálfbærni bara einn, tveir og þrír núna í september en það gæti verið gaman að skoða #secondhandseptember. Það er mun einfaldara að taka eins mánaðar áskorun þar sem þú í raun kaupir þér ekki nýja flík.
Það er svo margt hægt að gera annað en að kaupa sér nýja flík í hvert skipti sem félagslífið býður uppá eitthvað skemmtilegt. Hér eru nokkrar uppástungur:
- Fá lánað hjá vini/vinkonu
- Skiptast á fötum, þ.e. gefa og fá gefins
- Hressa uppá fötin í fataskápnum
- Leigja sér dress fyrir partý/afmæli/brúðkaup…
- Kaupa sér notað
Hversu skemmtilegt gæti það verið að hóa í vinahópinn, sem mætir með flíkur úr fataskápnum sem fólk er orðið leitt á eða notar lítið. Síðan er skiptst á flíkum, ýmist lánað eða gefið. Allir fá eitthvað „nýtt“ í sinn fataskáp og allir glaðir. Þetta gerðum við systurnar, notuðum föt hvor af annarri og við vinkonurnar líka. Það segir sig sjálft að möguleikarnir aukast verulega við þetta fyrirkomulag.
Annað sem hægt er að gera, í stað þess að rölta um í verslanamiðstöð, kíkja í sömu búðirnar aftur og aftur til þess eins að skoða hvað er til – sem endar mögulega í að þú dettur niður á „góðan díl“ og kaupir flík sem þig vantar ekkert – að rölta um í verslun fyrir notuð föt. Í þannig verslunum finnur þú miklu stærra úrval af mismunandi klæðnaði, allt frá krumpuðum stuttermabolum upp í yfirhafnir frá dýrum merkjum.
Sumum finnst það bara ekkert mál að kaupa ekki nýjar flíkur, öðrum finnst það áskorun og geta bara ekki hugsað sér að kaupa sér flík sem einhver hefur notað í x langan tíma. Það er svo misjafnt hvernig okkur líður með flíkurnar sem við notum og þá er gott að hafa kjark og þor til að prófa nýjar samsetningar á því sem er í fataskápnum. Svo getur líka verið munur á notaða fatnaðinum, t.d. ef einhver í vinahópnum vill losa sig við flík, myndir þú geta notað hana? Ef svo er, þá er hægt að halda skiptifataviðburð – og ef þú getur notað flíkur frá vinum þínum, hvað með vinahóp vina? Svona stækkar hópurinn sem þú gætir keypt, leigt eða fengið lánað frá – ef þú ert týpan sem getur ekki keypt notuð föt af ókunnugu fólki.
Það er líka ýmislegt sem við getum gert þegar við sleppum því að kaupa nýja flík, aðalatriðið er að vera með opinn huga og hugsa í lausnum. Það getur t.d. verið nóg að taka uppáhaldsflíkina og setja hana með einhverju sem þú hefur aldrei prófað að setja með henni, eða taka af henni kragann – eða bæta kraga á…eða skreyta flíkina með tölum, bótum eða glingri. Það er hægt að handsauma – sumir nota meira að segja nælur til að festa skrautið og nælan er hluti af skrautinu. Svona eins og pönkararnir í gamla daga 🙂
Ég hvet þig til að taka þátt í þessari áskorun minni, skoða hvað þú átt og leita annarra leiða við nýbreytni í fatastíl en að kaupa glænýja flík úr búð 🙂
Fróðleikur



Takk fyrir að lesa – ef þér líkaði máttu deila til þeirra sem gætu haft gagn og gaman af <3